Innlent

Vilja aðgerðir gegn ólöglegu niðurhali

Mikill fjöldi netnotenda hleður niður tölvuleikjum, tónlist, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og bókum.Fréttablaðið/Valli
Mikill fjöldi netnotenda hleður niður tölvuleikjum, tónlist, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og bókum.Fréttablaðið/Valli
Samtök rétthafa horfa til fyrirhugaðra lagabreytinga í Noregi sem eiga að taka á ólöglegu niðurhali. Vona að frumvarp verði lagt fram hér fyrir vorið. Spænskir dómstólar geta nú lokað fyrir vefsíður.

Íslensk höfundarréttarsamtök vilja að farin verði sama leið hér á landi og fyrirhugað er að fara í Noregi til að hindra ólöglegt niðurhal og dreifingu á höfundarréttarvörðu efni.

Samkvæmt norska frumvarpinu getur opinber stofnun ákveðið að loka fyrir aðgang norskra netnotenda að síðum sem hafa þann tilgang að dreifa höfundarréttarvörðu efni. Svipuð lög hafa þegar tekið gildi á Spáni, og víðar er verið að undirbúa lagasetningu til að taka á þessu vandamáli.

„Það eru allir að reyna að finna réttu leiðina til að stemma stigu við ólöglegri dreifingu tónlistar,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF).

„Það er verið að skoða á vegum Höfundarréttarnefndar að fara ekki ósvipaða leið hér á landi. Þá er horft til þess að opinber stofnun geti, að kröfu rétthafa, tekið þá ákvörðun að fjarskiptafyrirtæki hér á landi þurfi að loka fyrir aðgengi að tiltekinni vefsíðu,“ segir Guðrún Björk.

Hún segir þetta raunhæfustu leiðina til að loka fyrir erlendar síður og íslenskar síður sem vistaðar eru erlendis. Hún segir að miðað sé við að aðeins verði hægt að loka fyrir vefsíður sem bersýnilega hafi það markmið að dreifa höfundarréttarvörðu efni án heimildar höfunda.

Í lögum sem tóku gildi á Spáni um áramót fær sérstök nefnd kvartanir rétthafa til meðferðar, og ákveði hún að loka fyrir aðgengi að vefsíðum þarf dómari að staðfesta þá ákvörðun. Markmiðið er að málsmeðferðin öll taki ekki meira en tíu daga.

Guðrún Björk segir STEF frekar hafa horft til norsku leiðarinnar, þar sem opinber stofnun taki ákvörðun án þess að hún sé borin undir dómara, þó auðvitað verði að veita ábyrgðarmönnum þeirra vefsíða sem loka eigi fyrir andmælarétt. Hætt sé við að ferlið taki of langan tíma ef bera þurfi hverja ákvörðun undir dómara. brjann@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.