Enski boltinn

Fær Balotelli níu leikja bann?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mario Balotelli í leik með Manchester City.
Mario Balotelli í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli mun missa af næstu þremur leikjum Manchester City vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Arsenal um helgina en ekki er útilokað að honum verði einnig refsað fyrir að tækla Alex Song í sama leik.

Martin Atkinson, dómari leiksins, tók ekki eftir því þegar að Balotelli fór með takkana á undan sér í Song.

Balotelli hefur nú þrívegis fengið rautt í deildinni í vetur og fari svo að honum verði einnig refsað fyrir tæklinguna á Song bætist í raun fjórða rauða spjaldið við. Það þýðir hefðbundið þriggja leikja bann auk þriggja leikja til viðbótar fyrir fjórða rauða spjaldið. Semsagt níu leikja bann.

Roberto Mancini, stjóri City, sagði eftir leikinn gegn Arsenal að Balotelli myndi ekki spila aftur með liðinu í vetur og að líklega yrði hann seldur í sumar. Balotelli sendi svo frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar og óskaði eftir viðræðum við forráðamenn liðsins.

Balotelli var mættur á æfingasvæðið á Carrington í morgun og sagði umboðsmaður hans, Mino Raiola, að Ballotelli vilji vera áfram í Englandi.

„Drengurinn sér mikið eftir því sem gerðist. Ég heyrði í Roberto og ég get nú fullvissað alla um að félagið ætli sér ekki að selja hann. Kannski lét hann þessi orð falla vegna þess að hann átti erfitt með að kyngja tapinu. Mario vill vera áfram í Englandi og hann er samningsbundinn City."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×