Innlent

Fjórir viðriðnir fíkniefnasmyglið

Fjórir hafa verið handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna fíkniefnamálsins sem Vísir greindi frá fyrr í dag. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þrír hafi verið úrskurðaðir í varðhald til 30. apríl en sá fjórði til 23. apríl. Mennirnir voru allir handteknir á sunnudagsmorgun. Einn var tekinn í flugstöð Leifs Eiríkssonar og tveir þegar þeir voru á leið til höfuðborgarinnar. Sá fjórði var síðan handtekinn heima hjá sér en hann er búsettur hérlendis. Mennirnir eru allir erlendir ríkisborgarar og höfðu þremenningarnir komið hingað til lands frá Póllandi.

„Það voru tollverðir á Keflavíkurflugvelli sem komust á snoðir um málið en þeir sýndu mikla árverkni og góð vinnubrögð þegar málið uppgötvaðist. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer nú með rannsókn málsins en það er unnið í samvinnu við lögregluna á Suðurnesjum og tollyfirvöld," segir í tilkynningu lögreglu sem veitir ekki frekari upplýsingar að svo stöddu. Fréttastofa hefur þó heimildir fyrir því að um tæplega fjögur kíló af amfetamíni sé að ræða.


Tengdar fréttir

Teknir með töluvert magn af amfetamíni

Þrír karlmenn voru handteknir á Reykjanesbrautinni á sunnudagsmorgun með töluvert magn af amfetamíni fórum sínum. Mennirnir höfðu stuttu áður komið með flugvél frá Varsjá í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×