Innlent

Teknir með töluvert magn af amfetamíni

Mennirnir komu með vél frá Varsjá í Póllandi á sunnudagsmorgun.
Mennirnir komu með vél frá Varsjá í Póllandi á sunnudagsmorgun. mynd/úr safni
Þrír karlmenn voru handteknir á Reykjanesbrautinni á sunnudagsmorgun með töluvert magn af amfetamíni fórum sínum. Mennirnir höfðu stuttu áður komið með flugvél frá Varsjá í Póllandi.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru mennirnir þrír stöðvaðir af tollvörðum við komuna til landsins. Leitað var í töskum þeirra og var fíkniefnahundur látinn þefa af þeim. Þegar því var lokið fengu þeir halda leið sinni áfram í gegnum tollinn og út úr flugstöðinni. Þegar þeir voru svo á leið sinni til Reykjavíkur á Reykjanesbrautinni voru þeir stöðvaðir af lögreglu, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Um töluvert magn er að ræða en það liggur ekki fyrir að svo stöddu hversu mikið það er, en eftir því sem fréttastofa kemst næst eru þetta að á fjórða kíló af amfetamíni.

Hvorki lögreglan á Suðurnesjum né tollgæslan á Keflavíkurflugvelli vildi tjá sig um málið, þegar eftir því var leitað í morgun.

Mennirnir, sem eru allir pólskir, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald síðdegis í gær en það er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem fer með rannsókn málsins. Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en sagði að von væri á yfirlýsingu frá lögreglunni um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×