Enski boltinn

Wigan slátraði Newcastle | Stoke hélt jöfnu gegn Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Liðsmenn Wigan höfðu ástæðu til að fagna í dag.
Liðsmenn Wigan höfðu ástæðu til að fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Wigan heldur áfram ótrúlegu gengi sínu á lokasprettinum í ensku úrvalsdeildinni og í dag fékk Newcastle að kenna á því. Nikica Jelavic skoraði tvívegis í 4-0 sigri Everton á Fulham. Þá skildu Stoke og Arsenal jöfn 1-1 auk þess sem Wolves náði í stig í ótrúlegu 4-4 jafntefli gegn Swansea.



Wigan 4-0 Newcastle


1-0 Victor Moses (13.), 2-0 Victor Moses (15.), 3-0 Shaun Maloney (36.), 4-0 Franco Di Santo (45.)

Leikmenn Wigan halda áfram að framkvæma kraftaverk gegn toppliðunum. Manchester United og Arsenal hafa bæði fengið að kenna á lærisveinum Roberto Martinez undanfarnar vikur og í dag var Newcastle fórnarlambið.

Eftir stundarfjórðungsleik var Victor Moses búinn að skora tvívegis og Shaun Maloney og Franco Di Santo bættu við mörkum fyrir leikhlé. Ekkert var skorað í síðari hálfleik en þrjú mikilvæg stig í hús hjá Wigan.

Liðið hefur unnið fjóra af síðustu sjö leikjum sínum og virðist ætla að takast að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni enn eitt árið.

Swansea 4-4 Wolves

1-0 Andrea Orlandi (1.), 2-0 Joe Allen (3.), 3-0 Nathan Dyer (15.), 3-1 Steven Fletcher (28.), 4-1 Danny Graham (31.), 4-2 Matthew Jarvis (33.), 4-3 David Edwards (43.), 4-4 Matthew Jarvis (69.)

Liðsmenn Swansea og Wolves buðu upp á markaveislu á Liberty-leikvanginum í dag. Heimamenn byrjuðu mun betur. Andrea Orlandi skoraði áður en leikmenn Wolves höfðu komið við boltann og eftir stundarfjórðung var staðan orðin 3-0.

Þegar Danny Graham kom Swansea í 4-1 eftir rúmlega hálftíma leik virtist björinn unninn. Annað kom á daginn.

Tvö mörk frá Matthew Jarvis og eitt frá David Edwards tryggðu Úlfunum eitt stig sem skiptir þá í raun engu máli. Þeir gátu hins vegar gengið stoltir af velli.

Stoke - Arsenal 1-1

1-0 Peter Crouch (10.), 1-1 Robin van Persie (15.)

Ef frá er talinn 3-1 sigur tímabilið 2009-2010 gengur Arsenal illa að sækja þrjú stig á Britannia-leikvanginn. Sú varð einnig raunin í dag.

Peter Crouch kom heimamönnum yfir snemma leiks en Robin van Persie, sem á dögunum var valinn besti leikmaður deildarinnar af bæði blaðamönnum og leikmönnum, jafnaði metin skömmu síðar eftir undirbúning Tomas Rosicky.

Þrátt fyrir tvö töpuð stig styrkti Arsenal stöðu sína í 3. sæti deildarinnar þar sem Newcastle steinlá gegn Wigan.

Everton - Fulham 4-0

1-0 Nikica Jelavic (6.), 2-0 Marouane Fellaini (16.), 3-0 Nikica Jelavic (40.), 4-0 Tim Cahill (61.)

Króatíski framherjinn Nikica Jelavic heldur áfram að reyndast Everton vel. Kappinn skoraði tvívegis í 4-0 sigri á Fulham en þetta var annar leikurinn í röð þar sem Jelavic skorar tvívegis. Auk þess var þetta annar leikurinn í röð þar sem Everton skorar fjögur mörk.

Jelavic hefur nú skorað átta mörk í átta deildarleikjum fyrir Everton en hann kom til liðsins frá Rangers í félagaskiptaglugganum í janúar.

Everton styrkti stöðu sína í 7. sæti deildarinnar með sigri. Liðið hefur fimm stiga forskot á Liverpool sem mætir Norwich síðar í dag.

Sunderland - Bolton 2-2

0-1 Kevin Davies (26.), 1-1 Nicklas Bendtner (36.), 2-1 James McClean (55.), 2-2 Kevin Davies (70.)

Kevin Davies reyndist hetja Bolton sem náði í stig gegn Sunderland á Ljósvangi. Davies kom Bolton á bragðið í fyrri hálfleik en Daninn Nicklas Bendtner jafnaði fyrir hlé.

James McClean kom heimamönnum yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Kevin Davies skoraði hins vegar ágætt skallamark um miðjan hálfleikinn og tryggði gestunum stig.

Grétar Rafn Steinsson var ekki í leikmannahópi Bolton sem náði QPR að stigum en er þó enn í fallsæti sökum lakara markahlutfalls.

West Brom - Aston Villa 0-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×