Innlent

Þrír hafa tilkynnt um framboð

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins mun í fyrsta sinn kjósa í embætti annars varaformanns flokksins. Þessi mynd var tekin á síðasta landsfundi. Fréttablaðið/Anton
Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins mun í fyrsta sinn kjósa í embætti annars varaformanns flokksins. Þessi mynd var tekin á síðasta landsfundi. Fréttablaðið/Anton
Þrír hafa tilkynnt um framboð til annars varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en kosið verður til embættisins í fyrsta skipti á flokksráðsfundi hinn 17. mars næstkomandi.

Þeir sem þegar hafa stigið fram eru Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, og Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður flokksins, hefur einnig verið nefndur í þessu sambandi, en í samtali við Fréttablaðið í gær sagðist hann ekki hafa gefið neitt út um málið. Hann muni þó tilkynna um ákvörðun sína á næstunni.

Embætti annars varaformanns verður nokkuð veigamikið þar sem sá sem því gegnir mun, auk þess að vera staðgengill formanns og varaformanns, vera formaður miðstjórnar og sem slíkur hafa yfirumsjón með allri stefnumótun og málefnastarfi innan flokksins.

Áhugasamir geta tilkynnt framboð til annars varaformanns allt fram að kjöri á flokksráðsfundinum.

Stofnað var til embættisins á síðasta landsfundi Sjálfstæðisins að tillögu framtíðarnefndar flokksins. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×