Enski boltinn

Pele: Messi ekki betri en Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinn ungi Neymar með þeim Pele og Sepp Blatter.
Hinn ungi Neymar með þeim Pele og Sepp Blatter. Nordic Photos / Getty Images
Brasilíumaðurinn Pele segir að Lionel Messi sé ekki besti knattspyrnumaður heims - til þess þurfi hann að gerast betri knattspyrnumaður en Neymar.

Pele hefur mikla trú á hinum unga Neymar sem leikur með Santos í heimalandinu - gamla liðinu hans Pele. Lionel Messi hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Barcelona á Spáni og segir Pele að reynsla sé það eina sem hann hafi fram yfir Neymar.

„Nú eru allir að tala um Messi og er hann mikil stjarna. En hann verður að verða betri en Neymar ef hann á að teljast sá besti frá upphafi. Messi býr aðeins yfir meiri reynslu," sagði Pele við fjölmiðla í heimalandinu á dögunum.

Neymar er tvítugur sóknarmaður sem hefur verið orðaður við mörg bestu lið Evrópu - allra helst Barcelona og Real Madrid. Hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir tveimur árum og hefur þegar skorað átta mörk í sextán landsleikjum.

Hann er samningsbundinn Santos til 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×