Enski boltinn

Balotelli búinn að biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Mario Balotelli, framherji Manchester City, hefur beðist afsökunar á rauða spjaldinu sem hann fékk á móti Arsenal í gær. Balotelli fékk þá sitt annað gula spjald á 88. mínútu en Arsenal hafði skömmu áður skorað eina mark leiksins. Balotelli var reyndar í ruglinu allan leikinn og hefði getað verið búinn að fá rauða spjaldið mun fyrr.

„Ég er mjög leiður yfir því sem gerðist og hvernig ég brást Man City og þá sérstaklega Roberto Mancini sem ég ber mikla virðingu fyrir og elska," sagði Mario Balotelli í viðtali við Sky. „Varðandi framtíð mína hjá City þá verðum við bara að sjá til í sumar. Ég mun þá ræða mín mál við félagið," sagði Balotelli.

Roberto Mancini hraunaði yfir leikmanninn í leikslok og það var að heyra á orðum ítalska stjórans að Mario Balotelli spilaði ekki fleiri leiki fyrir hann á þessu tímabili.

Framkoma Mario Balotelli hefur einnig skapað óvissu í kringum framtíð hans í ítalska landsliðinu en Cesare Prandelli, þjálfari Ítala, tók hann út úr landsliðshópnum eftir að leikmaðurinn stappaði á Scott Parker í janúar.

„Ég vil endilega spila með landsliðinu. Ég braut bara tvisvar af mér í leiknum. Ég er þegar búinn að missa af landsliðinu vegna eins slæms atviks og ætla ekki að láta slíkt koma fyrir aftur," sagði Mario Balotelli.

Balotelli telur augljóslega tæklinguna á Alexandre Song ekki með í fyrrnefndri tölfræði enda sá dómarinn Martin Atkinson ekkert athugavert við þá ruddatæklingu framherjans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×