Innlent

Grunaður um að hafa hótað fólki úr gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhald yfir karlmanni sem er ákærður fyrir fjölmörg brot, meðal annars að hafa ráðist á barnsmóður sína vopnaður hamri og veitt henni áverka. Meðal gagna sem lögð voru fyrir í gæsluvarðhaldskröfunni var listi með nöfnum þar sem maðurinn hafði skrifað ákveðnar upphæðir við hvert nafn. Listinn fannst í fangaklefa hans.

Meðal annars skrifaði hann tíu milljónir við hlið fornafns barnsmóður sinnar. Grunur leikur á að maðurinn hafi listann sér til hliðsjónar til þess að kúga fé út úr fólki, og hugsanlega haft í hótunum við það eftir að hann var úrskurðaður í varðhald.

Maðurinn, sem var handtekinn þann 24. mars síðastliðinn, er meðal annars ákærður fyrir að hafa valdið tjóni á húsakynnum Fjölskyldudeildar á Akureyri og haft í hótunum við starfsmenn stofnunarinnar. Þá er honum einnig gefið að sök að hafa hótað manni með keðjusög borgaði hann ekki skuld vegna fíkniefnaviðskipta. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×