Innlent

Allir hæstaréttardómarar vanhæfir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Allir hæstaréttardómarar voru vanhæfir í máli sem flutt var í Hæstarétti í gær. Ástæðan er að annar málsaðilinn er sjálfur hæstaréttardómari.

Lánasjóður íslenskra námsmanna stefndi hæstaréttardómaranum Viðari Má Matthíassyni vegna ábyrgðar sem hann gekkst í fyrir tæpum þremur áratugum.

Deilan snerist um túlkun á þágildandi lögum um LÍN, en samkvæmt þeim fellur ábyrgð niður eftir að hámarkstími endurgreiðslu er liðinn, sem var 20 ár. Málskotsnefnd LÍN hafði túlkað reglurnar LÍN í óhag.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Viðar hins vegar af kröfum LÍN í nóvember. Málinu var þá vísað til Hæstaréttar, en vegna stöðu Viðars voru allir dómarar þar vanhæfir.

Eins og heimild í lögum gerir ráð fyrir féll það í hlut forseta Hæstaréttar, Markúsar Sigurbjörnssonar, að gera tillögu að forseta dómsins í málinu, sem skipaður var Símon Sigvaldason, héraðsdómari í Reykjavík.

Hann skipaði síðan tvo dómara með sér, þá Sigurð Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Skarphéðin Þórisson, hæstaréttarlögmann.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Hæstaréttar er þetta ekki einsdæmi, en þó kemur þessi staða afar sjaldan upp.

Dómur verður kveðinn upp í málinu innan fjögurra vikna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×