Innlent

Neyðarvistunum gæti fjölgað

Forstöðumaður Stuðla segir mögulegt að neyðarvistunum fjölgi á meðan á lokun stendur.
Forstöðumaður Stuðla segir mögulegt að neyðarvistunum fjölgi á meðan á lokun stendur. Fréttablaðið/Pjetur
Meðferðardeildin á Stuðlum verður lokuð allan júlí vegna sumarleyfis starfsfólks. Er þetta í fyrsta sinn sem þetta er gert og var ákvörðunin tekin til að hagræða og bæta meðferðina.

Þórarinn V. Hjaltason, forstöðumaður á Stuðlum, segir stefnt að því að ljúka meðferð barnanna á eðlilegum tíma. Eina hugsanlega áhyggjuefnið sé að börnum í neyðarvistun muni fjölga á meðan, en sú deild verður áfram opin. „En við bregðumst bara við því ef til þess kemur,“ segir hann. „Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert og við munum bara mæta því sem til kemur og endurskoða eftir þörfum.“

Allar líkur verða á því að gott aðgengi verði að plássum á meðferðardeild Stuðla strax í ágúst þrátt fyrir mánaðarlokun.

„Það gefur augaleið að almenn meðferð minnkar á meðan á lokuninni stendur, en undanfarin ár hefur dregið verulega úr starfseminni á sumrin þó deildin sé opin,“ segir Þórarinn.

Undanfarin ár hefur sú leið verið farin að fækka börnum yfir sumarið og mæta leyfum starfsfólks með afleysingarfólki. Þá hefur nýting meðferðardeildar verið slök fram að hausti, er segir í tilkynningu frá Barnaverndarstofu. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×