Innlent

Nærtækast að brúa Þorskafjörð utarlega

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegamálastjóri segir nærtækast að brúa Þorskafjörð utarlega verði vegarlagning um Teigsskóg ekki leyfð. Slík lausn kæmi þorpinu á Reykhólum til góða.

Ögmundur Jónasson, ráðherra vegamála, leggst gegn því að framtíðarlega Vestfjarðavegar verði um Teigsskóg, eins og Vegagerðin vildi, en sú tillaga, kölluð leið B, gerði ráð fyrir að vegurinn færi út með vestanverðum Þorskafirði og yfir Djúpafjörð og Gufufjörð. Ögmundur lagði í staðinn til að grafin yrðu göng undir Hjallaháls, en Vestfirðingar sjá ekki að peningar í slík göng fáist á næstunni.

Ráðherrann hefur falið Vegagerðinni að skoða aðra kosti og segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri allt að fimm leiðir til skoðunar. Ef Teigsskógsleiðin sé úti, sem allir séu þó ekki sammála um, sé ljóst að jarðgöng séu dýr og unnt sé að leggja ódýrari láglendisveg. Þá sé nærtækast, að mati vegamálastjóra, að fara út með Þorskafirði og þar yfir en síðan yrði fylgt sömu leið og áður var áformað.

Þessi leið þýddi að firðirnir þrír yrðu allir brúaðir en Teigsskógi yrði hlíft. Þjóðvegurinn frá Bjarkalundi myndi þannig ekki liggja um botn Þorskafjarðar heldur yrði lagður nýr vegur út með austanverðum firðinum. Brú yfir utanverðan Þorskafjörð þýddi að einfalt yrði að gera tengingu við Reykhóla, sem kæmust þannig í alfaraleið.

Hreinn segir undirbúning miða við að unnt verði að bjóða verkið út eftir þrjú ár, eða um það leyti sem endurbyggingu vegarins milli Kjálkafjarðar og Vattarfjarðar lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×