Innlent

Fann notaðar sprautunálar við göngustíg

Boði Logason skrifar
Hér má sjá eina sprautu og nál sem Gunnar fann í dag. Hann tók þær með sér og er búinn að farga þeim.
Hér má sjá eina sprautu og nál sem Gunnar fann í dag. Hann tók þær með sér og er búinn að farga þeim. Mynd/GG
„Ég fór bara út að labba með stelpuna mína í dag þegar ég rakst þetta. Mér var svolítið brugðið," segir Gunnar Guðlaugsson, íbúi í Laugaráshverfinu í Reykjavík, sem rakst á notaðar sprautunálar og umbúðir við göngustíg í grennd við elliheimilið Hrafnistu eftir hádegið í dag.

„Ég var ekkert spá í þessu en svo leit ég á svæðið í kring og þá sá ég ekkert nema tómar umbúðir af sprautum, auk þess að þarna voru tvær sprautur og þrjár nálar," segir Gunnar í samtali við Vísi nú í kvöld.

Hann hafði samband við lögregluna sem tók niður upplýsingar hjá honum og bað hann um að farga sprautunum. „Ég tók þetta með mér í poka sem ég var með á mér og konan mín fór með þetta í apótek þar sem starfsmenn voru meira en tilbúnir til að taka við þessu og farga."

Gunnar býr í nágrenninu en segist ekki hafa orðið var við svona áður og hann viti ekki hver skildi sprauturnar eftir. „Þetta passar ekki alveg við hverfið."

„Mér fannst þetta svolítið óviðeigandi því það er mjög mikið af krökkum sem eru að leika sér á þessu svæði," segir hann og bendir á að þau kannski viti ekki hættuna sem getur stafað af notuðum sprautunálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×