Innlent

Íslendingar þurfa að greiða meira en aðrir

Hugrún Jórunn Halldórsdóttir skrifar
Íslendingar sem geta ekki eignast börn með eðlilegum hætti þurfa að greiða mun meira en aðrir Norðurlandabúar fyrir að láta draum sinn rætast. Styrkir íslenska ríkisins til verðandi kjörforeldra er til að mynda helmingi lægri en í Danmörku.

Bág fjárhagsstaða félagsins íslenskrar ættleiðingar hefur meðal annars haft þau áhrif að ættleiðingar til landsins taka mun lengri tíma og eru kostnaðarsamari en á öðrum Norðurlöndum. „Þetta er náttúrulega kostnaðarsamt ferli og styrkur ríkisins við þessi pör eða einstaklinga sem fara í ættleiðingarferli er lítill miðað við á hinum Norðurlöndunum. Hér er hann rúmlega 500 þúsund en í Danmörku t.d. er hann yfir milljón," segir Helga Sól Ólafsdóttir doktor í félagsráðgjöf.

Þá er kostnaður við tæknifrjóvganir einnig hærri hér á landi en hann jókst um áramótin þegar dregið var úr niðurgreiðslum. Á hinum Norðurlöndunum er í raun og veru 3 til 4 meðferðir fríar fyrir pör. Hér þurfa pör að borga fyrir fyrstu meðferð þrjúhundruð og áttatíu þúsund til fjögurhundruð og fimmtíu þúsund. Og fyrir meðferð númer 2,3 og 4, er það 45% af þessari upphæð," segir hún.

Helga bendir á að alþjóða heilbrigðismálastofnunin hafi skilgreint ófrjósemi sem sjúkdóm og gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að skera niður á þessu sviði á meðan stjórnvöld annarra Norðurlanda séu að auka kostnaðarþátttöku sína ef eitthvað er. Það sé óréttlæti þegar einungis þeir efnameiri hafi möguleika á slíkum úrræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×