Fótbolti

Buffon pirraður út í fögnuð liðsfélaganna: Ég fagna ekki öðru sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það voru ekki allir Ítalar kátir eftir sigurinn á Þjóðverjum í undanúrslitum Evrópumótsins í gær. Gianluigi Buffon, markvörður og fyrirliði Ítala, strunsaði af velli og var allt annað en sáttur út í viltan fögnuð liðsfélaganna.

„Ég var pirraður þegar leikurinn var flautaður af því ég fagna ekki öðru sæti og ég var svekktur af því að við vorum nærri búnir að missa þetta niður. Þetta varð alltof spennandi síðustu fimm mínúturnar," sagði Gianluigi Buffon við AFP-fréttastofuna.

Ítalir fengu fullt að færum til að komast í 3-0 og gera út um leikinn en Þjóðverjar náðu að minnka muninn í 2-1 í lokin.

„Þegar þú færð tækifæri til að skora sjö mörk á móti Þjóðverjum, skoraðu þá sjö mörk á móti Þjóðverjum. Ef þeir hefðu jafnað í 2-2 þá hefðu þeir örugglega unnið 10-2 í framlengingunni," sagði Buffon. Framundan er úrslitaleikur á móti Spánverjum.

„Við þurfum að þroskast og leikmennirnir verða að læra það að þótt að fótbolti sé bara leikur þá gildir það ekki lengur þegar þú ert kominn í úrslitaleikinn á EM," sagði Buffon sem var annars ánægður með leik sinna manna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×