Innlent

Von er á bótakröfum vegna strandstígs

Bærinn hyggst leggja hjólreiða- og göngustíga fyrir almenning neðan við sjávarlóðir á Arnarnesi en á ekki strandlengjuna. Fréttablaðið/E. Ól.
Bærinn hyggst leggja hjólreiða- og göngustíga fyrir almenning neðan við sjávarlóðir á Arnarnesi en á ekki strandlengjuna. Fréttablaðið/E. Ól.
Landeigendur á Arnarnesi krefjast bóta samþykki bæjaryfirvöld nýtt deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir almenningsstígum við strandlengjuna. Í lögfræðiáliti fyrir bæinn segir að landeigendurnir hafi réttinn sín megin.

Bæjaryfirvöld fengu Andra Árnason hæstaréttarlögmann til að fara yfir tilteknar athugasemdir sem bárust vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi á Arnarnesi. Snýst málið meðal annars um eignarhald á landi undir almenningsgarð og landi undir malbikaðan og upplýstan göngu- og hjólastíg meðfram strandlengjunni á norðanverðu og norðvestanverðu Arnarnes.

Deilt er um túlkun gamals samkomulags frá upphafi skipulagðrar byggðar á Arnarnesi þar sem landeigendur afsöluðu sér landi til almenningsnota. Segja landeigendurnir að þar sem nú sé gert ráð fyrir almenningsgarði á Háholti hafi upphaflega átt að vera skóli og að landinu hafi verið afsalað til þeirra nota sérstaklega.

Andri Árnason telur bæinn hafa eignarhald á Háholtinu en öðru máli gegni um land undir almenningsstíga á norður- og norðvesturströndinni. Þar þurfi leyfi landeiganda fyrir lagningu stíganna. Auk þess kunni eigendur íbúðarhúsalóða að telja sig verða fyrir tjóni með því að nýtingarmöguleikar eigna þeirra minnkar og verðmæti lækkar. „Telja verður líklegt að lóðareigendur verði í slíkum tilfellum taldir eiga bótarétt á hendur sveitarfélaginu,“ segir í lögfræðiálitinu.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×