Erlent

Beitir sér af alefli gegn Capriles

Hugo Chavez lét ekki rigninguna stöðva sig á kosningafundi á fimmtudag. nordicphotos/AFP
Hugo Chavez lét ekki rigninguna stöðva sig á kosningafundi á fimmtudag. nordicphotos/AFP
Henrique Capriles, forsetaframbjóðandi í Venesúela, sakar Hugo Chavez forseta um að hafa gefið ríkisstarfsmönnum bæði rauðan bol og frí í vinnunni einn dag til að taka þátt í kosningasamkomu á fimmtudaginn. Þeim hafi verið gert skylt að mæta á fundinn.

Forsetakosningar verða haldnar á morgun og skoðanakannanir hafa undanfarið spáð Capriles nokkrum líkum á sigri, þótt Chavez njóti enn mikilla vinsælda og stjórni landinu nánast eins og persónulegri eign sinni.

Á fimmtudaginn voru ríkisstofnanir lokaðar og tugir þúsunda ríkisstarfsmanna flykktust út á götur höfuðborgarinnar Caracas, ásamt fjölmörgum öðrum stuðningsmönnum forsetans.

Alls er talið að þátttakendur í samkomunni hafi skipt hundruðum þúsunda. Þátttakan varð þar með meiri en á stuðningsfundi mótframbjóðandans Capriles um síðustu helgi.

Capriles nýtur, eins og Chavez, mikilla vinsælda í landinu. Hann er leiðtogi flokks frjálslyndra, fyrrverandi ríkisstjóri í Miranda og hefur heitið því að berjast gegn glæpum, spillingu og þunglamalegu embættismannakerfi.

Hann sat í fangelsi um skeið árið 2004 vegna gruns um aðild að valdaránstilraun gegn Chavez árið 2002.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×