Fótbolti

Hefð sem kominn er tími til að breyta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laugardalsvöllur 5. september 1998. Guðjón Þórðarson, landsliðsþjálfari og Eyjólfur Sverrisson, fyrirliði, fagna jafntefli við heimsmeistara Frakka.
Laugardalsvöllur 5. september 1998. Guðjón Þórðarson, landsliðsþjálfari og Eyjólfur Sverrisson, fyrirliði, fagna jafntefli við heimsmeistara Frakka.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar sinn fyrsta leik í undankeppni HM 2014 á föstudagskvöldið þegar Norðmenn koma í heimsókn á Laugardalsvöllinn. Þetta er fyrsti alvöru landsleikur liðsins undir stjórn Lars Lagerbäck en mikil batamerki hafa verið á liðinu síðan að Svíinn tók við því.

Nú er að sjá hvort Lagerbäck og strákunum takist að afnema leiðinlega hefð hjá íslenska landsliðinu sem hefur ekki náð í stig í fyrsta heimaleiknum á þessari öld. Í undanförnum sex undankeppnum HM eða EM hefur nefnilega fyrsti heimaleikurinn tapast.

Ísland hóf einnig síðustu undankeppni á heimaleik á móti Norðmönnum og lengi vel leit út fyrir að strákunum væri að takast að breyta hefðinni. Heiðar Helguson kom íslenska liðinu í 1-0 á 38. mínútu og Ísland var með undirtökin í fyrri hálfleiknum. Norðmenn skoruðu hins vegar tvö mörk í seinni hálfleik og hirtu öll stigin. Ísland tapaði reyndar fyrstu þremur heimaleikjum sínum í keppninni og stigin komu ekki í hús fyrr en í 1-0 sigri á Kýpur í lokaheimaleiknum sem er einmitt síðasti alvöruleikur strákanna í Laugardalnum.

Íslenska liðið náði stigum í fyrsta leik í undankeppni EM 2008 (3-0 sigur á Norður-Írlandi) og HM 2010 (2-2 jafntefli við Noreg) en báðir leikirnir voru á útivelli. Nokkrum dögum síðar var komið að fyrsta heimaleiknum en þeir töpuðust báðir fyrir Dönum (0-2, EM 2008) og Skotlandi (1-2, HM 2010).

Það eru nú liðin 14 ár síðan að Íslands fékk eitthvað út úr sínum fyrsta heimaleik í undankeppni eða síðan að liðið gerði 1-1 jafntefli við Frakka undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar 5. september 1998.

Væntingar til fyrsta leiks hafa verið mismiklar fyrir undankeppnir landsliðsins á þessari öld en góð spilamennska liðsins í vináttuleikjum undir stjórn Lars Lagerbäck á þessu ári sem og sannfærandi sigur á Færeyjum á dögunum gefa tilefni til bjartsýni um að þessi leiðinlega hefð landsliðsins heyri sögunni til eftir föstudagskvöldið.

Fyrsti heimaleikur Íslands í undankeppnum

EM 2000: 1-1 jafntefli við Frakkland

HM 2002: 1-2 tap fyrir Danmörku

EM 2004: 0-2 tap fyrir Skotlandi

HM 2006: 1-3 tap fyrir Búlgaríu

EM 2008: 0-2 tap fyrir Danmörku

HM 2010: 1-2 tap fyrir Skotlandi

EM 2012: 1-2 tap fyrir Noregi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×