Fótbolti

Þjálfari Noregs: Ísland mun ekki komast á HM

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Olsen fagnar hér sigri gegn Íslandi í Ósló en honum hefur gengið vel að fá stig gegn íslenska liðinu síðustu ár.nordicphotos/afp
Olsen fagnar hér sigri gegn Íslandi í Ósló en honum hefur gengið vel að fá stig gegn íslenska liðinu síðustu ár.nordicphotos/afp
Norðmenn hafa varann á fyrir leikinn við Ísland í kvöld og ljóst að ekkert vanmat er í gangi hjá norska liðinu þó svo það hafi verið sigursælt gegn því íslenska á undanförnum árum.

„Ég er búinn að skoða leiki íslenska liðsins og þekki veikleika þess og styrkleika. Ég held að þetta sé besta lið sem Ísland hefur teflt fram," sagði Egil „Drillo" Olsen, hinn reyndi landsliðsþjálfari Noregs á blaðamannafundi í gær.

„Íslenska liðið hreif mig gegn Svíum og Frökkum. Það þarf að varast allt í leik íslenska liðsins. Föstu leikatriðin, skyndisóknirnar og sendingarnar af köntunum. Við verðum að vera á tánum ef ekki á illa að fara."

Þetta er þriðja undankeppnin í röð þar sem Ísland og Noregur mætast og Olsen segir því að fátt í leik liðanna eigi að koma á óvart.

„Íslenska liðið er með marga sterka leikmenn innan sinna raða en liðin þekkjast vel. Það er því erfitt að koma á óvart í þessum leik. Ég veit að Lagerbäck er búinn að skoða okkar leik líka vel," sagði Olsen sem stefnir á að komast á HM í Brasilíu. En hvað segir hann um möguleika íslenska liðsins?

„Ég held að Ísland eigi eftir að taka mörg stig í riðlinum en hef þó ekki trú á því að liðið fari alla leið á HM."

Það eru kynslóðaskipti í norska liðinu rétt eins og því íslenska. John Arne Riise, leikmaður Fulham, er reynslumesti leikmaður Norðmanna og mun slá landsleikjamet spili hann í kvöld.

„Ég er búinn að æfa með liðinu og leið vel. Ef þjálfarinn vill að ég spili þá mun ég spila," sagði Riise sem skoraði í sínum síðasta leik á Laugardalsvelli.

„Það er alltaf gaman að koma til Íslands og á Laugardalsvöll. Okkur líkar vel að koma hingað. Við erum samt með marga nýja menn og kynslóðaskipti hjá okkur rétt eins og hjá ykkur. Það er bara gaman. Ég held að við eigum helmingsmöguleika á sigri enda er íslenska liðið mun betra en margir halda."

Félagi Riise hjá Fulham, hinn hávaxni Brede Hangeland, verður í miðri vörn norska liðsins í kvöld.

„Ísland er með fullt af góðum leikmönnum og ég er hrifinn af því hvað Íslendingum hefur tekist að búa til marga góða leikmenn sem eru að gera það gott víða um Evrópu," sagði Hangeland.

„Við vitum vel að þetta verður erfiður leikur og að við verðum að spila mjög vel ef við ætlum að ná í sigur. Við vitum ekki alveg hvar við stöndum með okkar nýja lið en búumst við því að fá svör í þessum leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×