Fótbolti

Ísland nógu gott til að komast á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, segir engan vafa um að Ísland eigi möguleika að vinna sér sæti í úrslitakeppni HM sem fer fram í Brasilíu eftir tvö ár.

Lagerbäck stýrir landsliðinu í sínum fyrsta mótsleik þegar að liðið mætir Noregi í undankeppni HM í kvöld.

Hann segir helstu ástæðuna fyrir því að Ísland hafi getuna til að komast á stórmót vera gott gengi U-17 og U-21 landsliða Íslands í gegnum tíðina.

U-17 liðið keppti til úrslita á EM 2007 og svo aftur núna í vor. U-21 lið Íslands keppti í úrslitakeppni EM í Danmörku í fyrra.

„Fyrst U-17 og U-21 liðið gátu það þá getum við það líka," sagið hann á blaðamannafundi í gær. „Á mínum 20-30 árum hjá sænska sambandinu náði U-17 liðið að komast kannski tvisvar í úrslitakeppni EM. En Íslandi tókst það."

„Ástæðan er helst sú að félögin og knattspyrnusambandið vinna mjög náið saman að aðhlynningu ungra leikmanna. Hér eru innanhúshallir þar sem æft er allt árið og margir hæfileikaríkir leikmenn sem huga þarf vel að."

Hann segir viðhorf íslenska knattspyrnumanna einnig mjög gott og það hafi hann vitað áður en hann kom hingað til lands til að taka við starfi landsliðsþjálfara.

„Ég hafði komið margoft hingað til lands áður en ég tók við starfinu. Það er kannski erfitt að bera Íslendinga saman við aðrar Norðurlandaþjóðir en þeir virðast vera meiri einstaklingar og afslappaðri. Þeim finnst ekkert merkilegt ef einhver frægur gengur inn í herbergið."

„Þeir virðast taka hlutunum eins og þeir koma. Það er gott að vinna með þeim og íslenskir knattspyrnumenn er umhugað um liðsheildina. Þess vegna tók ég við þessu starfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×