Fótbolti

Bandaríska kvennadeildin í fótbolta lögð endanlega niður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nú er útséð með framtíð bandarísku kvennadeildarinnar í fótbolta en forráðamenn deildarinnar hafa ákveðið að leggja deildina endanlega niður. 2012-tímabilið var flautað af í janúar en bundnar voru vonir við að deildin yrði endurvakin á næsta ári en svo verður ekki.

Bandaríska deildin hefur verið starfrækt í þrjú ár og Hólmfríður Magnúsdóttir spilaði stórt hlutverk með Philadelphia Independence sem var eitt besta lið deildarinnar. Hólmfríður var með samning við Independence líkt og Katrín Ómarsdóttir þegar deildin var flautuð af í ársbyrjun og þurftu þær í kjölfarið að finna sér nýtt lið.

Þetta er önnur tilraun við atvinnudeild í kvennafótbolta í Bandaríkjunum en líkt og í fyrra skiptið entist deildin bara í þrjú tímabil. Það var líka atvinnudeild í kvennafótboltanum frá 2000 til 2003.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×