„Við vildum hafa þemað nokkuð opið og gefa fólki færi á að beita ímyndunaraflinu. Er Ísland og Evrópa ef til vill íslenskur námsmaður erlendis, frönsk kvikmyndahátið í Reykjavík eða einfaldlega danskar pylsur í matvöruverslun?" segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu. Hún segir ljósmyndakeppnina hafa fallið svolítið í skuggann af opnun Evrópustofu sjálfrar og því hafi verið ákveðið að framlengja skilafrestinn.
„Ísland er hluti af Evrópu og við viljum hvetja fólk til að íhuga hvernig Evrópa birtist okkur í hvunndeginum, hvað sé íslenskt og hvað evrópskt og hvernig þessi tvö hugtök spila saman."
Verðlaun eru í boði fyrir þrjár efstu myndirnar en auk þess verða bestu myndirnar hluti af farandsýningu og notaðar í kynningarefni fyrir Evrópustofu.
1. sæti: Flugferð fyrir tvo til Evrópuborgar að eigin vali.*
2. sæti: Glæsileg Canon IXUS 230 HS myndavél ásamt hulstri.
3. sæti: Hentugur Camlink þrífótur og bakpoki fyrir ljósmyndabúnað frá KATA.
- Myndinni skal skila á jpg-formi á netfangið evropustofa@evropustofa.is, en hún má ekki vera minni en 500 KB og ekki stærri en 2 MB.
- Titill tölvupósts skal vera Ljósmyndasamkeppni en í meginmáli þarf að fylgja nafn höfundar og upplýsingar um heimilisfang, netfang og símanúmer.
- Mynd skal skilað inn fyrir kl. 23:59 þann 6. mars. Myndir sem berast eftir þann tíma eru ekki gjaldgengar í keppninni.
Tilkynnt verður um úrslit tveimur vikum síðar, þann 20. mars, 2012.