Fótbolti

Hef aldrei átt betra samtal við leikmann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Van Persie fagnar marki sínu á föstudaginn.
Van Persie fagnar marki sínu á föstudaginn. Nordic Photos / Getty Images
Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins, segir að hann hafi gjörbreytt afstöðu sinni til Robin van Persie eftir samtal sem þeir áttu í sumar.

Van Gaal tók við hollenska landsliðinu eftir EM í sumar og breytti liðinu nokkuð eftir að skelfilegt gengi þess í Póllandi og Úkraínu. Þekktir leikmenn voru ekki valdir í liðið og Van Persie átti að vera einn þeirra.

„Ég ræddi við nokkra leikmenn sem voru í liðinu sem keppti á EM í sumar. Van Persie var einn þeirra leikmanna," sagði van Gaal við hollenska fjölmiðla.

„Ég sagði honum beint út að ég væri með aðrar áætlanir fyrir liðið og að hann yrði ekki lengur fyrsti kostur í sóknarlínu liðsins."

„Viðbrögð Robin komu mér mjög á óvart. Hann var jákvæður, sagði að hann bæri virðingu fyrir ákvörðun minni og að hann myndi halda áfram að gefa allt sitt fyrir landsliðið. Hann sagði að ég gæti stólað á hann ef ég myndi kalla á hann aftur."

Þetta varð til þess að van Gaal skipti um skoðun og setti hann í byrjunarliðið fyrir leik Hollands gegn Tyrklandi í undankeppni HM 2014. Holland vann, 2-0, og van Persie skoraði glæsilegt mark í leiknum.

„Ég hef aldrei áður átt betra samtal við leikmann. Van Persie hefur beðið mig um að ræða ekki opinberlega um hvað var rætt nákvæmlega en þetta var mjög sérstakur fundur. Ég ber mikla virðingu fyrir honum bæði sem leikmanni og persónu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×