Fótbolti

Umfjöllun: Búlgaría - Ísland 0-10 | Ísland í toppsæti riðilsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslenska kvennalandsliði í knattspyrnu tyllti sér í toppsæti riðils síns í undankeppni Evrópumótsins með 10-0 sigri á Búlgaríu í viðureign þjóðanna í Lovech í dag. Íslenska liðið leiddi í hálfleik 3-0 en allar flóðgáttir opnuðust í síðari hálfleik.

Íslenska liðið fékk óskabyrjun því strax á 10. mínútu skoraði fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir með skalla eftir hornspyrnu Eddu Garðarsdóttur. Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í leiknum en gekk illa að skapa sér færi allt þar til Sara Björk Gunnarsdóttir bætti við marki eftir um hálftíma leik. Þá vann Edda Garðarsdóttur boltann með fínni tæklingu, sendi í gegn á Söru sem kláraði færið vel.

Um miðjan fyrri hálfleikinn var gert hlé á leiknum vegna mikils hita og leikmönnum boðið að fá sér vatn. Um 35 stiga hiti var í Lovech í fyrri hálfleik.

Margrét Lára Viðarsdóttir komst á blað á 36. mínútu með sínu 64. landsliðsmarki. Þá tók Sif Atladóttir langt innkast inn á teiginn, boltinn var framlengdur á Margréti Láru sem kláraði færið vel. Staðan 3-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik opnuðust allar flóðgáttir í búlgörsku vörninni sem hafði sloppið nokkrum sinnum með vafasama rangstöðudóma í fyrri hálfleik. Henni brást illa bogalistin strax á 49. mínútu.

Þá reyndu varnarmennirnir að spila Margréti Láru rangstæða á vallarhelmingi íslenska liðsins. Lögum leiksins samkvæmt er slíkt ómögulegt. Margrét Lára þakkaði fyrir sig, keyrði upp völlinn og skoraði annað mark sitt og fjórða mark Íslands. Aðeins mínútu síðar fékk Sara Björk fína sendingu frá Katrínu Ómars. Sara tók boltann á brjóstkassann áður en hún lyfti boltanum yfir markvörð Búlgara og staðan orðin 0-5.

Varamaðurinn Dagný Brynjarsdóttir skoraði sjötta mark Íslands á 64. mínútu þegar hún fylgdi á eftir skoti Margrétar Láru sem var varið. Varamaðurinn Katrín Ómarsdóttir bætti við marki aðeins þremur mínútum síðar eftir undirbúning Söru Bjarkar og staðan orðin 0-7. Ótrúlegar tölur og útlit fyrir stærsta sigur liðsins í undankeppninni.

Búlgörsku stelpurnar reyndu hvað þær gátu að tefja og hægja á leiknum en íslensku stelpurnar voru langt í frá að vera hættar. Varamaðurinn Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á 70. mínútu og þremur mínútum skoraði Valsarinn Dóra María Lárusdóttir. Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir skoraði svo síðasta marka leiksins og sitt annað mark með skalla eftir hornspyrnu Eddu Garðarsdóttur á 80. mínútu. Staðan orðin 0-10. Ótrúlegar tölur!

Á 84. mínútu áttu Búlgarir sitt fyrsta og eina skot á markið í leiknum en Þóra varði í markinu.

Frábær sigur hjá íslensku stelpunum sem eru komnar í toppsæti riðilsins með 19 stig. Norðmenn hafa 18 stig og Belgar 17 stig. Markatala Íslands er skiljanlega miklu betri eftir sigurinn og nú munar aðeins einu marki á norska liðinu og því íslenska. Ólíklegt er þó að markatala komi til með að ráða úrslitum í riðlinum.

Ísland mætir Norður-Írlandi í síðasta heimaleik sínum í riðlinum á Laugardalsvelli 15. september. Að honum loknum heldur liðið til Noregs þar sem heimakonur verða sóttar heim í leik sem að öllu eðlilegu verður úrslitaleikur um toppsæti riðilsins.



Allar upplýsingar um stöðuna í riðlinum og næstu leiki má sjá hér.




Textalýsing blaðamanns Vísis frá leiknumLeik lokið. Íslenska liðið vinnur ótrúlegan 10-0 sigur á Búlgörum. Toppsæti C-riðils undankeppni EM er okkar. Vel gert hjá stelpunum okkar.

84. mín Fyrsta skot Búlgara á markið. Þóra Björg vel á verði í markinu.

80. mín Ísland fær hornspyrnu sem Edda Garðarsdóttir tekur. Hver önnur en fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir er mætt inn á teiginn og skorar tíunda mark Íslands. Tveggja stafa tala takk fyrir. Búlgaría 0-10 Ísland.

73. mín Dóra María Lárusdóttir bætir við öðru marki sínu í leiknum. Staðan orðin 9-0. Þvílík slátrun hjá íslensku stelpunum. Staðan var 3-0 í hálfleik en mörkunum hefur rignt inn í síðari hálfleik.

70. mín Dóra María Lárusdóttir komin á blað. Mörkunum rignir nú inn hjá stelpunum. Staðan orðin 8-0.

68. mín Kristín Ýr Bjarnadóttir kemur inn á fyrir Söru Björk Gunnarsdóttur. Allir leikmenn íslenska liðsins sem farið hafa af velli voru komnir með spjald í keppninni. Fjórða spjaldið hefði þýtt bann.

67. mín Staðan er orðin 7-0. Katrín Ómarsdóttir skorar fínt mark eftir sendingu frá Söru Björk. Varamaðurinn búinn að skora eitt og leggja upp annað.

64. mín Dagný Brynjarsdóttir skorar af stuttu færi eftir að markvörður Búlgara varði skot Margrétar Láru. Staðan 6-0.

58. mín Skipting: Dagný Brynjarsdóttir kemur inn á fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur

50. mín MARK Sara Björk Gunnarsdóttir kemur Íslandi í 5-0. Markaflæði í upphafi síðari hálfleiks.

49. mín MARK Margrét Lára Viðarsdóttir kemur Íslandi í 4-0. Annað mark Margrétar Láru og hennar 66. í 82 landsleikjum.

48. mín Hólmfríður Magnúsdóttir á fyrsta skotið í síðari hálfleik en hittir ekki á markið.

46. mín Skipting hjá Íslandi í hálfleik. Katrín Ómarsdóttir kemur inn á fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.

Umræða í hálfleik Líkurnar á búlgörsku marki í síðari hálfleik eru litlar ef litið er á stöðu mála í riðlinum. Liðið hefur aðeins skorað eitt mark í leikjunum átta og fengið á sig 38 mörk að meðtöldum mörkunum þremur í dag.

Umræða í hálfleik Margrét Lára Viðarsdóttir hefur nú skorað 65 mörk í 82 leikjum með landsliðinu. Katrín komin með 20 mörk í 118 leikjum. Sara Björk komin með 11 mörk í 49 leikjum.

Hálfleikur Íslenska liðið leiðir með þremur mörkum í hálfleik. Íslenska liðið hefur átt þrjú skot á markið og skorað úr þeim öllum. Ekki slæm nýting það. Góð staða hjá íslensku stelpunum sem komast í toppsæti riðilsins með sigri.

45+.mín Sara Björk með skot en framhjá markinu.

44. mín Margrét Lára með skot sem hittir ekki markið. Er í kjölfarið dæmd rangstæð. Áttunda skipti í leiknum sem gefur til kynna gang leiksins. Íslensku stelpurnar sækja og sækja en búlgarska vörnin heldur varnarlínu sinni ágætlega.

40. mín Með sigri kemst Ísland í 19 stig í riðlinum. Norðmenn hafa þegar 18 stig og Belgar 17 stig eftir sigra á andstæðingum sínum í gær. Heill hálfleikur eftir en útlitið er gott.

36. mín MARK Margrét Lára Viðarsdóttir bætir við þriðja markinu. Staðan orðin 3-0. Frábært hjá stelpunum!

30. mín Flott staða hjá íslensku stelpunum. Afar ólíklegt er að markatala muni ráða úrslitum í riðlinum þannig að krafan í dag er aðeins sigur. Erfitt að sjá íslensku stelpurnar missa þetta niður enda mun sterkara lið. Vonandi fáum við fleiri mörk.

29. mín MARK Sara Björk Gunnarsdóttir kemur Íslandi í 2-0.

22. mín Íslensku stelpurnar sækja en eru ítrekað dæmdar rangstæðar. Fjórum sinnum samtals, nú síðast Dóra María.

10. mín MARK 1-0 fyrir Ísland. Katrín Jónsdóttir skorar eftir hornspyrnu Eddu Garðarsdóttur. Draumabyrjun Íslands.

8. mín Sara Björk gripin í landhelgi. Fyrsta rangstaða leiksins. Í kjölfarið er Dóra María dæmd brotleg.

6. mín Sara Björk Gunnarsdóttir lætur finna fyrir sér og dæmd aukaspyrna á hættulegum stað. Ekkert verður úr aukaspyrnu Búlgara.

4. mín Hólmfríður Magnúsdóttir á fyrstu marktilraun leiksins en varnarmaður Búlgara kemst fyrir skotið.

Leikurinn er hafinn

Umræða fyrir leik: Tvær breytingar hafa verið gerðar á búlgarska liðinu frá því í 11-0 tapinu í Sarpsborg. Fyrirliðinn Silvia Radoyska kemur aftur inn í liðið en hún var fjarri góðu gamni gegn Norðmönnum. Kremena Prodanova, sem kom inn á sem varamaður í þeim leik, byrjar í dag.

Umræða fyrir leik: Hér fyrir neðan má sjá byrjunarlið Íslands og varamenn. Ein breytingar er á liðinu frá 3-0 sigrinum gegn Ungverjalandi. Þórunn Helga Jónsdóttir, uppalinn KR-ingur sem nú er á mála hjá Avaldsnes, stendur vaktina í vinstri bakverðinum í stað Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, leikmanns Stjörnunnar.

Umræða fyrir leik: Dómaraþríeyki dagsins kemur frá Spáni. Elia Martinez blæs í flautuna og Maria Luisa Villa Gutierrez og Judit Romano Garcia verða á hliðarlínunni.

Umræða fyrir leik Leikurinn í dag mun vafalítið snúast að miklu leyti um fyrsta markið. Takist stelpunum að brjóta ísinn snemma ætti eftirleikurinn að verða auðveldur. Liðið gæti hins vegar lent í vandræðum gangi illa að brjóta niður varnarmúr Búlgara. Hafa skal í huga að Íslandi tókst ekki að skora í 180 mínútur gegn Belgíu.

Umræða fyrir leik: Flestir reikna með tiltölulega auðsóttum sigri hjá stelpunum okkar ytra í dag. Búlgaría tapaði 11-0 gegn Noregi síðastliðinn laugardag og 6-0 gegn Íslandi á Laugardalsvelli á fyrri stigum keppninnar. Norðmönnum tókst þó ekki að brjóta ísinn fyrr en tuttugu mínútum fyrir leikslok í 3-0 útisigri og Danir náðu aðeins markalausu jafntefli gegn þeim í síðustu undankeppni.

Byrjunarlið Íslands er þannig skipað:

Markvörður: Þóra Björg Helgadóttir

Hægri bakvörður: Rakel Hönnudóttir

Miðvörður: Katrín Jónsdóttir (fyrirliði)

Miðvörður: Sif Atladóttir

Vinstri bakvörður: Þórunn Helga Jónsdóttir

Hægri kantur: Fanndís Friðriksdóttir

Miðja: Edda Garðarsdóttir

Miðja: Sara Björk Gunnarsdóttir

Vinstri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Framherji: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

Varamenn Íslands

Sandra Sigurðardóttir

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir

Dagný Brynjarsdóttir

Katrín Ómarsdóttir

Elín Metta Jensen

Kristín Ýr Bjarnadóttir

Sandra María Jessen

Íslenska liðið er í þriðja sæti síns riðils fyrir leikinn en með sigri komast stelpurnar á toppinn. Það er því ansi mikið undir í þessum leik. Þetta er þriðji síðasti leikur íslenska liðsins í riðlinum. Liðið mætir Norður-Írum á heimavelli næst en lokaleikurinn er gegn sterku liði Noregs ytra. Þrjú stig eru því nauðsynleg í dag.


Tengdar fréttir

Fyrsti leikur, fyrsta snerting, fyrsta markið | myndasyrpa

Ísland sigraði Ungverjaland 3-0 í undankeppni Evrópumeistaramótsins 2013. Margrét Lára Viðarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir skoruðu í fyrri hálfleik og nýliðinn Sandra María Jessen skoraði með sinni fyrstu snertingu þriðja mark Íslands skömmu fyrir leikslok. Hér má sjá myndasyrpu frá leiknum og þar á meðal er mynd frá því augnabliki þegar Sandra María skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með sinni fyrstu snertingu í sínum fyrsta landsleik.

Byrjunarlið Íslands klárt | Þórunn Helga inn fyrir Gunnhildi

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari Íslands, hefur tilkynnt byrjunarliðið sem mætir Búlgaríu í undankeppni Evrópumótsins ytra klukkan 15. Ein breyting er á liðinu sem lagði Ungverjaland 3-0 síðastliðinn laugardag.

Stefnir allt í úrslitaleik Íslands og Noregs um efsta sætið

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í efsta sæti 3. riðils í undankeppni Evrópumótsins eftir 3-0 sigur gegn Ungverjum í gær. Ísland er með 16 stig að loknum 7 leikjum en Norðmenn eru með 15 stig eftir 11-0 stórsigur í gær gegn liði Búlgaríu sem er í neðsta sæti án stiga eftir 8 leiki. Efsta liðið kemst beint í úrslitakeppnina sem fram fer í Svíþjóð sumarið 2013.

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Ísland - Ungverjaland 3-0

Ísland sigraði Ungverjaland 3-0 í undankeppni Evrópumeistaramótsins 2013. Margrét Lára Viðarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir skoruðu í fyrri hálfleik og nýliðinn Sandra María Jessen skoraði með sinni fyrstu snertingu þriðja mark Íslands skömmu fyrir leikslok.

Belgísku stelpurnar tóku toppsætið af Íslandi

Belgía komst aftur í efsta sætið í riðli Íslands í undankeppni EM kvenna í fótbolta eftir 3-1 útisigur á Ungverjalandi í dag. Belgía er með einu stigi meira en Ísland en íslensku stelpurnar geta endurheimt toppsætið með sigri í Búlgaríu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×