Lífið

Súrrealískt að leika á móti stjörnunni Russell Crowe

"Þetta var gríðarlega gaman," segir Konráð Ragnarsson, sem lék á móti Hollywood-leikaranum Russell Crowe í nýju tónlistarmyndbandi sem var frumsýnt fyrir helgi.

Myndbandið var tekið upp hér á landi fyrir lagið Testify sem Crowe samdi með félaga sínum Alan Doyle. Doyle leikur einmitt líka í myndbandinu ásamt Eggerti Rafnssyni. Bæði Konráð og Eggert fóru einnig með lítil hlutverk í stórmyndinni Noah sem var tekin upp að hluta til hér á landi í sumar.

Aðspurður segist Konráð hafa fengið óvænt símtal um að leika í myndbandinu og aðeins einni og hálfri klukkustund síðar var hann staddur við hliðina á Russ-ell Crowe og byrjaður að taka upp. "Þetta var alveg súrrealískt," segir Konráð, sem segist einnig hafa leikið í sautján tíma á móti Crowe í Noah.

Tökur á myndbandinu fóru fram í Árbæjarsafni, Bláa lóninu, miðbæ Reykjavíkur og í Krýsuvík. Þar leika þeir Konráð og Eggert laganna verði í villta vestrinu og eru ansi vígalegir í gervum sínum.

Doyle leikur dauðadæmdan fanga og Crowe prestinn sem ætlar að veita honum syndaaflausn. "Hann var bara almennilegur," segir Konráð um Óskarsverðlaunahafann Crowe. "Hann er náttúrulega stórstjarna og veit af því en hann talaði vel um Ísland.

Við spjölluðum stundum um daginn og veginn en hann var að leika í Noah þannig að það var svolítil hraðferð á þessu. Svo var hann með þriggja metra háan lífvörð og það var erfitt að komast fram hjá honum," segir hann og hlær.

Konráð var einnig nálægt því að hreppa hlutverk í mynd Bens Stiller, The Secret Life of Walter Mitty, sem hefur verið í tökum hérlendis. Hann komst í fjögurra manna úrtak en ekki lengra en það. "Það var mikið svekkelsi að fá ekki það hlutverk."

Hann viðurkennir að það sé ekki slæmt að hafa tónlistarmyndbandið á ferilskránni. "Noah var stórt verkefni. Þar hverfur maður svolítið en þarna erum við bara fjórir með aðalhlutverkin. Að hafa þetta á ferilskránni er rosalegt."

freyr@frettabladid.is

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.