Innlent

Unnið af kappi við að koma á rafmagni fyrir norðan

Vinnuflokkar RARIK leggja nú allt kapp á að koma rafmagni á að nýju á Norðausturlandi. Vonast er til að rafmagn verði komið á á svæðinu fyrir kvöldið.

Veðurguðirnir virðast hafa gengið í lið með mönnum en blíða er nú á Mývatni, heiðskýrt og sól. Mikill snjór er hinsvegar á svæðinu og það því erfitt yfirferðar.

Unnið var að viðgerðum í nótt og snemma í morgun komst rafmagn á í Bárðadal og þá er straumur kominn að Skútustöðum sunnan Mývatns. Í dag verður haldið áfram á því svæði og einnig norðan Mývatns.

Þá er enn straumlaust innst í Reykjadal og í Laxárdal. RARIK er með varaaflstöðvar í gangi í Kelduhverfi, á Kópaskeri, á Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði. Fólk er beðið um að fara sparlega með rafmagnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×