Innlent

Sláturtíð á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Um hundrað þúsund fjár verður slátrað hjá SS á Selfossi næstu átta vikurnar. Fjörutíu Pólverjar og átta Nýsjálendingar fluttu sérstaklega á Selfoss til að vinna í slátruninni. Hluti af kjötinu fer til Japans, en þeir vilja bara spikfeitt lambakjöt og borða það helst hrátt. Þá er lambakjöt nú í fyrsta sinn flutt til Rússlands.

Um hundrað starfsmenn voru ráðnir sérstaklega í sláturtíðina á Selfossi, sem mun standa yfir næstu vikurnar. Um tvö þúsund og fimm hundruð lömbum er slátrað á dag og því nóg að gera hjá starfsfólkinu. Haustslátrunin fer vel af stað.

„Við erum hér með fullt hús af úrvals fólki sem er staðráðið í að gera vel, framleiða úrvalsvöru úr frábæru hráefni, sem er íslenska lambakjötið," segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri hjá SS.

Lömbin koma af öllu Suðurlandi og víðar, eða af svæðinu í Öræfum í austri og alveg vestur í Dali. Guðmundur segir dilkana fallega og væna. En kjötið fer ekki bara á íslenska markaðinn.

„Nei, nei, við flytjum kjöt út á erlenda markaði, Evrópu, Noreg, Japan. Og Rússland er nýtt hjá okkur núna. Það fór aðeins af stað í fyrra en nú sjáum við fram á að flytja meira þangað," segir Guðmundur.

Hvernig kunna Japanir og Rússar við íslenska lambakjötið? spyr fréttamaður.

„Þeim hlýtur að líka það vel því þetta er svo frábær vara sem við eigum hérna og á ekkert nema framtíðina fyrir sér," segir Guðmundur.

Japanir vilja frá spikfeitt kjöt? spyr fréttamaður.

„Já þeir eru hrifnir af feita kjötinu. Mjög hrifnir af því. Ég held að þeir borði það hrátt að einhverju leyti. Svo þeir vilja hafa vöðvana vel fitusprengda og fallega," segir Guðmundur.

Fjörutíu Pólverjar komu sérstaklega til landsins til að vinna í sláturtíðinni á Selfossi og átta Nýsjálendingar, allt hörkuduglegt fólk eins og Íslendingarnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×