Innlent

Laun opinberra starfsmanna 20% lægri en á almennum markaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá blaðamannafundi þar sem niðurstöður launakönnunarinnar eru kynntar.
Frá blaðamannafundi þar sem niðurstöður launakönnunarinnar eru kynntar. mynd/ gva.
Laun opinberra starfsmanna eru um 20% lægri en á almennum markaði. Þetta sýna niðurstöður launakönnunar VR, SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem kynntar voru á sameiginlegum blaðamannafundi.

Heildarlaunin hækkuðu um 7-10% á tímabilinu janúar 2011 til janúar 2012, en þar af var launaskrið umfram kjarasamninga 2-3%. Mest var hækkun heildarlauna hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar eða 10%, en hún var 7,4% hjá VR og 7% hjá Starfsmannafélagi Ríkisins. Til að ná meðallaunum VR félaga þurfa laun félaga í SFR að hækka um 17,6% og laun félaga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar um 22%, þegar tekið hefur verið tillit til áhrifaþátta, s.s. menntunar. Hátt í helmingur félagsmanna VR er sáttur við launakjör sín en tæplega 20% félagsmanna SFR og liðlega 13% félagsmanna Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar eru sáttir við sín kjör.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í launakönnun sem félögin þrjú hafa látið gera meðal félagsmanna sinna og sem formenn þeirra kynna á blaðamannafundi í dag. Í fréttatilkynningu vegna könnunarinnar segir að gott samstarf hafi verið milli félaganna um gerð launakannana undanfarin ár en þetta er í fyrsta skipti sem félögin hafa með sér samstarf um birtingu niðurstaðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×