Innlent

Stórþjófnaður við Mývatn upplýstur

GS skrifar
Lögreglan er búin að upplýsa stórþjófnað úr peningaskáp á skrifstofu Jarðbaðanna við Mývatn nýverið, og er þungu fargi létt af heimamönnum.

Þjófnaðurinn var framinn aðfararnótt sjötta ágúst síðastliðinn, en þjófarnir fundu lykil að peningaskápnum á skrifstofunni þar sem skápurinn er, og gátu því opnað hann með lykli. Þaðan stálu þeir vel á þriðju milljón króna í reiðufé, meðal annars erlendum gjaldeyri sem baðgestir höfðu greitt fyrir þjónustu.

Lögreglan á Húasvík, með aðstoð rannsóknadeildar lögreglunnar á Akureyri hófu rannsókn, sem beindist brátt inn á höfuðborgarsvæðið, þannig að lögreglan þar hóf líka rannsókn. Það var svo í gær, þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók nokkur ungmenni vegna annars máls, að Mývatnsmálið upplýstist í leiðinni. Þýfið er hinsvegar löngu upp urið, enda eru viðkomandi ungmenni í óreglu.

Heimildir fréttastofu herma að málið hafi hvílt þungt á starfsfólki jarðbaðanna, enda talið að það hafi vitað hvar lykilinn að peningaskápnum var geymdur, og er því væntanlega létt við þessi málalok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×