Innlent

Mikill kynbundin launamunur vonbrigði

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
„Þessar niðurstöður valda auðvitað miklum vonbrigðum og það er eðlileg krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld taki á þessum óútskýrða kynbundnum launamun af alvöru. Nóg hefur verið rætt um vandann fram til þessa en nú þarf að bregðast við," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í frétt sem birtist á heimasíðu félagsins í morgun, um niðurstöður nýrrar launakönnunar sem tvö af aðildarfélögum BSRB, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og SFR-stéttarfélag í almannaþjónustu, hafa látið framkvæma ásamt VR.

Niðurstöðurnar voru kynntar í morgun og þar kom meðal annars fram að laun á almennum vinnumarkaði eru um 20% hærri en á þeim opinbera og að kynbundinn launamunur er enn mjög mikill, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Kynbundinn launamunur hjá SFR er 12,1% og 11,8% hjá St.Rv.

„Ég myndi ætla að svona hlutir væru í lagi, sérstaklega þegar ríki og sveitarfélög eru í hlutverki launagreiðandans. Fyrst eftir efnahagshrun sýndu kannanir að launamunur kynjanna væri að minnka. Nú er munurinn að aukast á ný og það gengur einfaldlega ekki," segir Elín Björg sem bendir á að BSRB hafi ítrekað kallað eftir aðgerðum til að leiðrétta launamuninn.

„Nú er búið að vinna að því í fjölda ára að greina vandann og ræða um hann en nú er kominn tími á raunverulegar aðgerðir. Óútskýrður kynbundinn launamunur á einfaldlega ekki að vera til staðar á Íslandi árið 2012," segir Elín Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×