Innlent

Leggið löglega í Laugardalnum - skýringarmynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir þeim góðfúslegu tilmælum til ökumanna sem eiga leið um Laugardalinn að nýta þau bílastæði sem þar eru í stað þess að leggja ólöglega á eða við götur á svæðinu. Þetta er nefnt sérstaklega vegna landsleiks Íslendinga og Norðmanna í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvellinum í kvöld.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að reynsla síðustu ára sýni að bílastæði við völlinn séu ekki fullnýtt þegar ýmsir stórviðburðir fara þar fram. Þess í stað hafa margir lagt það í vana sinn að leggja ólöglega á Reykjavegi og Engjavegi svo aðeins tvær götur séu nefndar. Sömuleiðis er iðulega lagt ólöglega á ýmis grassvæði í Laugardalnum. Lögreglan ítrekar því tilmæli sín til ökumanna og hvetur þá til að nýta bílastæðin til fulls. Að öðrum kosti mega ökumenn búast við sektum vegna stöðubrota en gjaldið, 5000 kr., rennur í Bílastæðasjóð.

Ljóst er að ekki geta allir vallargestir lagt bílum sínum við Laugardalsvöllinn en í nágrenni hans eru víða ágæt bílastæði. Þess má geta að veðurútlitið er gott og því ætti engum að muna um að leggja smáspöl frá leikvanginum og ganga í fáeinar mínútur að vellinum.

Hér fyrir ofan má sjá mynd þar sem staðsetning bílastæða eru sýnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×