Innlent

Fáklæddur og blóðugur ferðamaður á hjóli stöðvaður af lögreglunni

Í fyrrinótt var tilkynnt um klæðalítinn, erlendan ferðamann í Langholtshverfinu og sagt að hann hefði orðið fyrir barðinu á ræningjum samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Staðhæfingin um ránið reyndist ekki á rökum reist en upplýsingarnar um fataleysið stóðust.

Maðurinn, karl á miðjum aldri, var aðeins í nærfötum og því ekki búinn til útivistar. Hann var blóðugur þegar að var komið en áverka hafði maðurinn fengið þegar hann datt af reiðhjóli sem hann tók til handargagns í miðborginni og hjólaði á því í austurborgina. Lögreglan tók hjólið í sína vörslu og ók ferðamanninum, sem var ölvaður, á gististað hans í miðborginni.

Hinn erlendi gestur, sem á nú yfir höfði sér 5.000 kr. sekt fyrir að hjóla fullur, var beðinn um að vera betur klæddur það sem eftirlifði Íslandsdvalarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×