Innlent

Áfram í haldi vegna árásar sem hann man ekki eftir

BBI skrifar
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem sakaður er um tilraun til manndráps. Maðurinn réðist að öðrum utan við Fíladelfíukirkjuna í lok júlí og veitti honum svöðusár með stórum hníf.

Maðurinn er talinn hættulegur umhverfi sínu enda bendir allt til þess að hann hafi gerst sekur um lífshættulega árás. Hann er því úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 2. málsgreinar 95. greinar sakamálalaga, en skilyrði fyrir því er að gæsluvarðhaldið sé nauðsynlegt með vísan til almannahagsmuna.

Mennirnir tveir voru saman á partíi fyrir árásina en að sögn vitna rifust þeir í partíinu. Einhverra hluta vegna fóru þeir út þar sem þeim lenti saman fyrir utan Fíladelfíukirkjuna. Hvorugur þeirra man atburðarásina vel, enda voru þeir báðir allölvaðir. Skiptum þeirra lyktaði fyrir utan kirkjuna þar sem fórnarlambið lá eftir með stungusár á síðu en ákærði hljóp af vettvangi með stóran skurð á hendi. Ákærði hefur hvorki neitað sök né játað.

Í greinargerð lögreglustjóra er talið að maðurinn hafi ekki haft nokkra ástæðu fyrir árásinni.

Maðurinn verður í haldi til 4. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×