Innlent

Reykjavík orðin að litlu Kaupmannahöfn

Erla Hlynsdóttir skrifar
Reykjavíkurborg er orðin að lítilli Kaupmannahöfn þegar kemur að hjólamenningu, segir borgarfulltrúi. Þess vegna er nú leitað eftir frumlegum en jafnframt hagkvæmum hjólastæðum.

Þetta er víða algeng sjón enda hefur hjólum fjölgað gríðarlega á síðustu misserum. Það er því kannski ekki að undra að Reykjavíkurborg og Hönnunarmiðstöð Íslands hafi efnt til samkeppni um hönnun hjólastæða og hjólaskýla.

Skýlið hér var sett upp tímabundið á vegum borgarinnar og er það að jafnaði mjög vel nýtt.

„Heyrðu, loksins erum við að díla við það lúxus vandamál að það eru fleiri hjól í borginni en við höfum stæði fyrir. Þetta er vandamál sem skemmtilegt er að leysa. Hjólreiðar hafa aukist rosalega mikið síðustu árin. Nú er hjólin komin svolítið út um allt. Við erum í svona lítilli Kaupmannahöfn, viljum við meina," segir Kristín Soffía Jónsdóttir, varaformaður umhverfis- og samgöngusviðs.

Keppnin rímar vel við hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar um að gera borgina betri fyrir hjólafólk.

Við Slippinn við Reykjavíkurhöfn er dæmi um flotta og frumlega reiðhjólastanda svo að þetta er alveg hægt. Annað dæmi er á móti Hótel Reykjavík Marína.

Frestur til að skila inn tillögum rennur út á mánudag, en ein milljón króna eru í boði fyrir bestu tillöguna.

„Við viljum bregðast við með þvi að gefa fólki tækifæri á að koma hjólinu sínu fyrir á öruggan hátt og hugsanlega undir einhverju skýli þannig að það verði ekki rassblautt þegar það stígur aftur upp á það," segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×