Innlent

Lofuðu að elska Verslunarskólann að eilífu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Nýnemar í Verslunarskóla Íslands sóru þess eið í dag að elska skólann um alla ævi og voru þar með vígðir inn sem Verslingar við hátíðlega athöfn. Nemendafélag skólans ákvað í stað hefðbundnar busunar að standa fyrir formlegri athöfn og innvígslu.

Nemendur á fyrsta ári í Verzlunarskóla Íslands voru sóttir með látum í stofur sínar í morgun þegar hinn árlegi nýnemadagur hófst. Mikil eftirvænting var meðal nýnemanna þegar þeir marseruðu saman í röð niður á samkomustað Verzlinga Marmarann þar sem eldri samnemendur biðu spenntir.

„Þetta er semi stress samt, þetta er alveg eins og einhver athöfn hérna,“ segja nýnemarnir Ragnar og Styrmir.

Formaður skemmtinefndar skólans segir tilmæli frá skólastjórn hafa verið að breyta til frá hinum hefðbundnu busunum

„Þetta hefur alltaf verið einhver busun, verið að láta þau borða eitthvað. Við erum að taka þetta í allt aðra átt. Erum bara með formlega athöfn þar sem við förum með eið og sverjum þau inn í skólann," sagði Leifur Hreggviðsson, formaður skemmtinefndar NFVÍ í samtali við fréttakonu. Svo sneri hann sér að nýnemunum sem stóðu á marmaranum og hrópaði yfir þá:

Dagurinn í dag markar upphaf fjögurra bestu ára lífs ykkar. Ég vil biðja ykkur að mynda vaff með hægri hendi og hafa svo eftir mér. Svo var farið með eið þar sem nýnemarnir hétu Verslunarskólanum ævarandi ást.

Eftir athöfnina var boðið upp á skúffukökur og mjólk og voru hinir nývígðu Verzlingar ánægðir með óhefðbundnu busunina

Voruð þið að búast við einhverju öðru hérna í dag? spyr fréttakona.

„Já eggjum og einhverju ógeði," segja Sylvía og Elma, nýnemar og segjast ánægðar að sú varð ekki raunin.

Líður ykkur eitthvað öðruvísi núna eftir þessa innvígslu? spyr fréttakona.

„Miklu betur. Ég er bara nýr maður," segir Esjar, nýnemi.

Hópurinn hélt síðan út á land í nýnemaferð þar sem fjörið mun halda áfram fram eftir nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×