Innlent

"Höftin voru erfiðasta ákvörðun þingferils míns"

Ólöf Nordal
Ólöf Nordal
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir atvinnuvegafjárfestingu stjórnarflokkanna en bendir á að fjárfestar sýni samt sem áður áhuga, þrátt fyrir höftin.

Varaformenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri Grænna, þær Ólöf Nordal og Katrín Jakobsdóttir, voru gestir í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar ræddu þær um stöðu mála hér á landi sem og störf Alþingis sem kemur til starfa í næstu viku.

Sem kunnugt er mun Ólöf kveðja þingið í vor og flytja til Sviss þegar kjörtímabilinu lýkur. Ólöf sagðist vera afar stolt af sínu starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sagði það vera aðdáunarvert að flokkurinn hefði nú jafn gott fylgi og raun ber vitni. Síðustu mánuði hefur Sjálfstæðisflokkurinn mælst með 36 til 38 prósent fylgi í þjóðarpúls Gallups.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú meira fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt," sagði Ólöf. „Ef flokkurinn heldur þessu fylgi í vetur þá er það auðvitað frábær árangur."

Ólöf sagði að átök síðasta þings hafi ekki verið á ábyrgð stjórnarandstöðunnar. Mun frekar hafi upptök hans verið innan ríkisstjórnarinnar og sá þrýstingur sem settur hafi verið á að klára stór mál. „Svo virðist sem að ágreiningur kraumi reglulega undir málum sem nauðsynlega þarf að leysa. En af hverju þessi asi? Af hverju þarf að klára öll þessi mál núna?"

Þá sagði Ólöf að atvinnuvegafjárfesting ríkisstjórnarinnar hefði haft slæmar afleiðingar í för með sér. Sannarlega sé rými fyrir fjárfestingu, þrátt fyrir höftin.

„Erfiðasta ákvörðun sem tók á mínum þingferli var að setja höftin á," sagði Ólöf. „En það virðist vera áhugi fyrir fjárfestingu þó svo að höftin séu við líði og það verðum við að nýta okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×