Lífið

Popptíví snýr aftur á skjáinn

Auðunn Blöndal, Sveppi og Pétur Jóhann tóku sig vel út á skjánum þegar Popptíví var sem vinsælast á fyrsta áratug þessarar aldar. Pálmi Guðmundsson segir hins vegar tímabært að leita að arftökum þessara hæfileikamanna þegar stöðin opnar á ný á fimmtudaginn.
Auðunn Blöndal, Sveppi og Pétur Jóhann tóku sig vel út á skjánum þegar Popptíví var sem vinsælast á fyrsta áratug þessarar aldar. Pálmi Guðmundsson segir hins vegar tímabært að leita að arftökum þessara hæfileikamanna þegar stöðin opnar á ný á fimmtudaginn.
Það var aldrei planið að láta stöðina liggja í dvala lengi og við teljum að nú sé rétta augnablikið til að opna á ný," segir Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 en stöðin Popptíví verður endurvakin á fimmtudaginn næstkomandi.

Popptíví leggur áherslu á efni fyrir ungu kynslóðina svo sem erlenda þætti og tónlistarmyndbönd í bland við innlenda dagskrárgerð.

Pálmi vill ekki gefa of mikið upp um dagskrá stöðvarinnar en lofar ungum og ferskum andlitum á skjáinn.

"Þetta verður svona síðdegis- og kvölddagskrá og leggjum við áherslu á að ná til unglinganna og allra þeirra sem telja sig enn þá vera unglinga. Erlendir sem innlendir þættir og tónlistarmyndbönd á daginn," segir Pálmi og bætir við að þau hafi fundið fyrir vöntun á markaðnum fyrir þennan aldurshóp.

Popptíví hætti útsendingum árið 2005 en þá var þar að finna þætti á borð við Íslenska popplistann, Geimtíví og svo 70 mínútur. Sá síðastnefndi var einn vinsælasti unglingaþáttur seinni tíma þar sem hamborgarafrumkvöðlarnir Simmi og Jói skutust upp á stjörnuhimininn sem og Auðunn Blöndal, Sveppi og Pétur Jóhann. Spurður hvort þessa kunnu kappa megi finna á skjánum þegar Popptíví snýr aftur svarar Pálmi: "Þeir eru allir komnir í annars konar dagskrárgerð hjá fyrirtækinu svo við erum miklu frekar að leita að arftökum þessara hæfileikamanna."

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.