Fótbolti

Blanc hættur með franska landsliðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Laurent Blanc mun ekki framlengja samning sinn sem landsliðsþjálfari Frakka í knattspyrnu.Franska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í gær.

Blanc tók við landsliði Frakka árið 2010 eftir hörmulegt gengi liðsins á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku. Frakkar komust ekki upp úr riðlinum á mótinu og sundrung varð í leikmannahópi liðsins.

Undir stjórn Blanc tókst honum að búa til lið sem þótti líklegt til afreka á Evrópumótinu í sumar. Liðið féllu úr keppni í 8-liða úrslitum eftir tap gegn Spánverjum. Í kjölfarið fór Samir Nasri ófögrum orðum um franskan blaðamann sem setti svartan blett á landsliðið.

Blanc sem er 46 ára hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Tottenham. Allt lítur þó út fyrir að André Villas-Boas verði kynntur til sögunnar hjá Lundúnarliðinu eftir helgi.

Didier Deschamps, knattspyrnustjóri Marseille, þykir líklegur arftaki Blanc en hann hefur gefið til kynna að hann vilji láta af störfum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×