Fótbolti

Balotelli: Skoraði mörkin fyrir mömmu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Balotelli fagnar ásamt De Rossi og félögum sínum.
Balotelli fagnar ásamt De Rossi og félögum sínum. Nordicphotos/Getty
Mario Balotelli skoraði bæði mörk Ítala sem tryggðu sér sæti í úrslitaleik Evrópumótsins með 2-1 sigri á Þjóðverjum í Varsjá í kvöld. Hann tileinkaði mörkin aldraðri móður sinni.

„Í leikslok fór ég til móður minnar, það var besta stundin. Ég sagði henni að ég hefði skorað þessi mörk fyrir hana," sagði Balotelli en sigurinn í kvöld hafði greinilega mikla þýðingu fyrir ítalska framherjann.

„Ég hef beðið eftir þessari stund lengi, sérstaklega þar sem móðir mín er orðin öldruð og getur ekki ferðast langt. Ég varð að gleðja hana fyrst hún lagði þetta ferðalag á sig. Faðir minn verður mættur á úrslitaleikinn í Kænugarði," sagði Balotelli en móðir hans var ekki sú eina sem var mætt til Varsjár.

„Fyrir leikinn voru móðir mín, bræður mínir, mágkona mín og besti vinur öll við hliðarlínuna. Að hafa mitt nánasta fólk á staðnum kveikti auðvitað í mér," sagði Balotelli sem fagnaði síðar marki sínu með tilþrifum. Hann reif sig úr að ofan og sýndi upphandsleggsvöðva sína. Balotelli uppskar áminningu fyrir vikið.

„Þeir urðu ekki reiðir vegna þess að ég fékk áminningu fyrir að fara úr treyjunni. Þeir sáu hins vegar líkamsbyggingu mína og urðu öfundsjúkir," sagði Balotelli sem hlakkar til úrslitaleiksins gegn Spánverjum.

„Þetta var stórkostlegasta kvöld lífs míns hingað til. Vonandi verður sunnudagurinn enn betri," sagði Balotelli.


Tengdar fréttir

Balotelli skoraði tvívegis og Ítalir komnir í úrslit

Ítalir eru komnir í úrslit á Evrópumóti karlalandsliða í knattspyrnu en liðið lagði Þjóðverja að velli 2-1 í undanúrslitaleiknum í Varsjá í kvöld. Mario Balotelli skoraði bæði mörk Ítala í fyrri hálfleik en Mesut Özil minnkaði muninn í viðbótartíma úr vítaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×