Fótbolti

Klose setti met í gær og ætlar að vera með Þjóðverjum á HM 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miroslav Klose þakkar Gianluigi Buffon fyrir leikinn.
Miroslav Klose þakkar Gianluigi Buffon fyrir leikinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Miroslav Klose spilaði seinni hálfleikinn í gær í tapi Þjóðverja á móti Ítölum í undanúrslitaleik Evrópumótsins. Klose tókst ekki að skora en sett met með því að taka þátt í sínum fimmta undanúrslitaleik á stórmóti. Hann er orðinn 34 ára en ætlar ekki að hætta í landsliðinu.

„Ég þarf tíma til að átta mig á því hvernig þetta fót allt saman en ég get vel hugsað mér að taka tvö ár í viðbót," sagði Miroslav Klose við þýsku sjónvarpsstöðina ARD.

„Við ætluðum okkur í úrslitaleikinn en Ítalarnir voru bara of sterkir. Kannski vorum við með það í undirmeðvitundinni að Þýskaland hefur aldrei unnið Ítalíu í alvöru landsleik," sagði Klose sem hefur skorað 64 mörk í 121 landsleik og þar af hafa 17 markanna komið á stórmótum.

Klose var eins og áður sagði að spila sinn fimmta undanúrslitaleik á stórmótum og var í þriðja sinn í tapliði. Hann komst í úrslitaleikinn á HM 2002 og á EM 2008 en tapaði líka í undanúrslitaleikjunum á HM 2006 og á HM 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×