Fótbolti

Rijkaard hefur ekki áhuga á að taka við hollenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Rijkaard.
Frank Rijkaard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollendingar leita nú að eftirmanni Bert van Marwijk sem hætti með hollenska landsliðið eftir ófarir liðsins á Evrópumótinu. Frank Rijkaard hefur verið orðaður við starfið en umboðsmaður hans segist skjólstæðing sinn ekki hafa áhuga á því að verða aftur þjálfari hollenska landsliðsins.

Auk hins 49 ára gamla Rijkaard hafa Ronald Koeman, Ruud Gullit, Guus Hiddink og Frank de Boer allir verið orðaðir við starfið. Umboðsmaður Frank Rijkaard segir hann vera með samning til ársins 2013 en Rijkaard þjálfar nú landslið Sádí-Arabíu.

„Frank er með samning til loka ársins 2013 og þó að Sádí-Arabía eigi ekki lengur möguleika á að komast á HM 2014 þá er enn nóg af verkefnum fyrir hann," sagði Perry Overeem, umboðsmaður Frank Rikjaard.

„Ég skil vel að fólk sjái Frank fyrir sér sem næsta landsliðsþjálfara en það skiptir hann engu máli. Kannski væri staðan öðruvísi ef að Sádarnir myndi segja upp samningnum en það skiptir heldur ekki máli í dag," sagði Overeem.

Bert van Marwijk var búinn að þjálfa hollenska landsliðið frá 2008 en undir hans stjórn fór liðið alla leið í úrslitaleikinn á HM 2010 og vann alls 34 af 52 landsleikjum undir hans stjórn.

Van Marwijk tók við liðinu af Marco van Basten en Hollendingur hefur þjálfað hollenska landsliðið allar götur síðan að Austurríkismaðurinn Ernst Happel stýrði liðinu frá 1977 til 1978.

Rijkaard þjálfaði hollenska landsliðið á árunum 1998 til 2000 en fór síðan til Barcelona og náði þar flottum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×