Innlent

Árásin á Hlemmi einstakt mál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heiða Kristín Helgadóttir er varaformaður velferðarráðs.
Heiða Kristín Helgadóttir er varaformaður velferðarráðs.
„Þetta er mjög leiðinlegt atvik, en einstakt mál geri ég ráð fyrir," segir Heiða Kristín Helgadóttir, varaformaður velferðaráðs Reykjavíkurborgar. Vísir sagði í gær frá myndbandi sem Grapevine birti af öryggisverði á Hlemmi sem gekk í skrokk á útigangsmanni sem hafðist þar við. Mikið hefur verið gert á Hlemmi til þess að reyna að koma í veg fyrir að fólk dvelji þar langtímum saman við óæskilega iðju, en sú spurning vaknar hvort nóg sé gert fyrir utangarðsfólk. Heiða Kristín telur að mikil vinna sé unnin.

„Við erum með mikið af úrræðum, erum að setja á fót mjög gott tilraunaverkefni sem við köllum Borgarverði, þar sem við ætlum að vera í samstarfi við lögregluna og félagsráðgjafa," segir Heiða Kristín. Markmiðið með verkefninu er að reyna að aðstoða fólk sem kemur sér í vanda vegna stöðu sinnar. „Svo er gistiskýlið og Dagsetrið úti á Granda sem Hjálpræðisherinn rekur, kaffistofa Samhjálpar. Það er allsstaðar eitthvað opið og ekki lokað á neinn," segir Heiða Kristín.

„Þetta er erfitt við að eiga en við erum sérstaklega núna á þessu kjörtímabilið búin að bæta í þessa þjónustu," segir Heiða Kristín. Hún bendir á að það sé nýbúið að móta stefnu um mannréttindi utangarðsfólks á vegum mannréttindaráðs. Þá muni hún sjálf leiða hóp sem fer af stað í haust við að halda áfram að móta stefnu í málum utangarðsmanna. Mikið hafi áunnist frá því að fyrri stefna var mótuð, en þá hafi fá úrræði verið í boði. Nú sé Reykjavíkurborg jafnframt að breyta einu af úrræðum sínum með það fyrir augum að þjónusta betur tvígreinda útigangsmenn sem glíma við geðsjúkdóma og fíkn. Þetta er Reykjavíkurborg að gera eitt sveitarfélaga.

„Það er verið að gera allt sem hægt er, en mér finnst þetta mjög leiðinlegt mál sem ég sá þarna í fréttum í gær," segir Heiða Kristín. Hún segist hafa skilið fréttina þannig að umræddum öryggisverði hafi verið vikið úr starfi á meðan málið sé til skoðunar og hún treysti því að það sé í réttu ferli.

Ekki náðist í Björk Vilhelmsdóttur, formann velferðarráðs, vegna fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×