Fótbolti

Birkir Bjarnason: Ég hefði ekki átt að renna mér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos / AFP
„Við erum auðvitað svolítið svekktir en stemmningin er allt í lagi," sagði Birkir Bjarnason sem átti frábæran leik í sókninni hjá Íslandi gegn Frökkum í kvöld.

Birkir var ánægður með frammistöðu liðsins, sérstaklega í fyrri hálfleik.

„Við spiluðum mjög vel. Við þorðum að halda boltanum þegar það var mögulegt og mér fannst við gera það mjög vel," sagði Birkir sem kom Íslendingum á bragðið með frábæru marki um miðjan fyrri hálfleikinn.

Birkir sagðist hafa verið meðvitaður um að gefa sér tíma en annars hefði planið ekki verið flókið. „Bara hitta á markið," sagði Birkir sem klúðraði dauðafæri snemma í síðari hálfleik í stöðunni 2-1.

Þá fékk hann boltann aleinn á vítateig Frakkanna en skot hans af stuttu færi var varið.

„Það var svakalegt. Ég hefði ekki átt að renna mér. Ég átti að standa í fæturnar og skjóta uppi," sagði Birkir sem sagði að það hefði verið erfitt að sjá leikmenn á borð við Malouda og Ribery koma inn á í síðari hálfleik þegar íslensku leikmennirnir voru farnir að þreytast.

„Það er ekki létt að fá ferska leikmenn í þeim gæðaflokki inná. Við vitum auðvitað hversu góðir þeir eru en það er ekkert annað í stöðunni en að gera sitt besta," sagði Birkir sem sagði allt annað hafa komist að í haus sínum en að skiptast á treyjum við frönsku stjörnurnar í leikslok.

„Við vorum drullusvekktir en við verðum að læra af þessu. Læra að halda út í svona leikjum," sagði Birkir.


Tengdar fréttir

Lars Lagerbäck: Malouda og Ribery réðu úrslitum

"Stemmningin er frekar dauf myndi ég segja. Það er alltaf erfitt að tapa í lokin líkt og í kvöld," sagði Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Íslands í samtali við Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×