Enski boltinn

Allar líkur á því að Roy Hodgson taki við enska landsliðinu í dag

Roy Hodgson fundaði með enska knattspyrnusambandinu í fjórar klukkustundir í gær.
Roy Hodgson fundaði með enska knattspyrnusambandinu í fjórar klukkustundir í gær. Getty Images / Nordic Photos
Allar líkur eru á því að enska knattspyrnusambandið, FA, greini frá því í dag að Roy Hodgson verði næsti þjálfari enska landsliðsins. Hodgson fundaði með FA í gær í fjórar klukkustundir. Samkvæmt heimildum enskra fjölmiðla mun hann stýra liði WBA í ensku úrvalsdeildinni í síðustu tveimur umferðunum áður en hann tekur við liði Englands sem leikur í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins sem hefst í byrjun júní í Póllandi og Úkraínu.

Ítalinn Fabio Capello hætti sem kunnugt er störfum sem þjálfari enska landsliðsins fyrr á þessu ári – eftir samstarfsörðugleika við stjórn FA.

Hinn 64 ára gamli Hodgson hefur mikla reynslu af starfi landsliðsþjálfara en hann náði góðum árangri með landslið Finnlands á sínum tíma. Hann hefur einnig þjálfað landslið Sviss og Sameinuðu arabísku furstadæmana. Hann var þjálfari Inter á Ítalíu og síðustu árin hefur hann verið knattspyrnustjóri hjá liðum í ensku úrvalsdeildinni, Fulham, Liverpool og WBA.

Samkvæmt heimildum Daily Mail mun FA jafnvel greina frá ráðningu Hodgson á fundi með fréttamönnum í dag.


Tengdar fréttir

Enska knattspyrnusambandið í viðræðum við Roy Hodgson

Enska úrvalsdeildarfélagið West Bromwich Albion hefur gefið knattspyrnustjóra sínum, Roy Hodgson, leyfi til þess að ræða við enska knattspyrnusambandið. Umræðuefnið er hvort hann sé tilbúinn að taka að sér þjálfun enska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×