Innlent

Rukkið veggjaldið bara lengur ef það dugar ekki

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stjórnarfrumvarp um að ríkissjóður ábyrgist lán til Vaðlaheiðarganga er komið á dagskrá Alþingis. Forseti bæjarstjórnar Norðurþings, Gunnlaugur Stefánsson, segir einfalt mál að lengja í lánunum ef veggjöld verða undir áætlunum og skorar á stjórnvöld að koma verkinu í gang.

Landshlutarnir keppast þessa dagana um að minna á mikilvægi jarðganga. Á Austfjörðum er gengið á milli húsa í Fjarðabyggð til safna áskorunum um ný Norðfjarðargöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og á Vestfjörðum er safnað undirskriftum undir ákall um Dýrafjarðargöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Það bendir hins vegar flest til þess að Vaðlaheiðargöng verði næst á dagskrá enda njóta þau þeirrar sérstöðu umfram hin að ekki er áformað að þau verði greidd úr ríkissjóði heldur er veggjöldum ætlað að greiða til baka lán sem fjármálaráðherra leggur til að ríkissjóður ábyrgist. Efasemdar á Alþingi um réttmæti slíkrar ríkisábyrgðar hafa tafið framgang málsins en í Þingeyjarsýslu skorar oddviti Norðurþings á stjórnvöld að koma framkvæmdum af stað.

Gunnlaugur Stefánsson segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að það komi nokkuð á óvart hvað þetta virðist standa í kerfinu, þar sem notendur eigi að greiða veggjald fyrir að aka í gegn. Hann kveðst eiga erfitt með að skilja efasemdir þingmanna. Það hljóti að vera hægt að lengja í lánum ef umferðin verður ekki nægileg til að greiða lánin niður á áætluðum tíma.

"Þá hljóta menn að lengja bara þann tíma sem er rukkað fyrir þessa umferð," segir Gunnlaugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×