Innlent

Könnun: Flestir vilja gera Laugaveg að göngugötu í sumar

Vísir/HAG
Meirihluti Reykvíkinga, eða 63,3%, er hlynntur því að hluta Laugavegs verði breytt í göngugötu í sumar ef marka má netkönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar.

26,6% svarenda voru alfarið hlynntir sumarlokun og segir í tilkynningu frá borginni að það sé mjög afgerandi niðurstaða. 18,1% voru mjög hlynntir og 18,6% frekar hlynntir sumarlokun. Aðeins 20,6% eru andvíg hugmyndinni, 7,2% voru alfarið andvíg , 3,7% mjög andvíg og 9,7% frekar andvíg.

16,1% svöruðu hvorki/né.

„Athygli vekur að stuðningur við sumarlokun er mestur á meðal þeirra sem gefa upp hæstu tekjurnar. Þannig svara 33% í hópnum sem hefur fjölskyldutekjur á bilinu 800 - 999 þúsund á mánuði því til að þeir séu alfarið hlynntir hugmyndinni og 27% þeirra sem hafa fjölskyldutekjur milljón eða hærri," segir ennfremur. „Afgerandi stuðningur er einnig við hugmyndina á meðal fólks á aldrinum 18 - 54. Til dæmis eru 41% á aldrinum 25 - 34 ára alfarið hlynntir sumarlokun."

Úrtakið var 1066 manns í öllum hverfum Reykjavíkur, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 664 eða 62.3%.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir hverfum kemur í ljós mjög afgerandi stuðningur við sumarlokun í þeim hverfum sem eru næst Laugavegi. Þannig eru 36% íbúa í Mið- og Vesturbæ alfarið hlynnt sumarlokun og 37% íbúa í Hlíðum og Laugardal. Í öðrum hverfum er einnig meirihluti svarenda hlynntur því að breyta Laugavegi að hluta til í göngugötu í sumar.

Spurningin var svohljóðandi: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að hluti Laugavegar verði gerður að göngugötu í sumar?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×