Innlent

Allir helstu fjölmiðlar heims fjalla um Landsdómsmálið

Allir helstu fjölmiðlar heimsins fjalla um dóm Landsdóms yfir Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra sem kveðinn var upp í gær.

Flestir byggja þeir á hlutlausri frétt Reuters um málið en túlkanir á dóminum eru mismunandi eftir miðlum. Þannig segir Der Spiegel í Þýskalandi að ráðherrann fyrrverandi sé meðsekur í aðdraganda fjármálakreppunnar og hið sama segir Politiken í Danmörku. TV2 í Noregi leggur hinsvegar áherslu á að Geir hafi sloppið við refsingu og nefnir raunar norskan uppruna hans.

BBC segir að Geir sé fyrsti þjóðarleiðtoginn sem fær dóm vegna fjármálakreppunnar og lætur þess getið að enn sé ósamið um Icesave. Þá segir BBC einnig að margir Íslendingar telji að Geir hafi verið gerður að blóraböggli í málinu.

Í breska blaðinu Guardian er einnig fjallað um Icesave í tengslum við Landsdómsmálið. Þar er það m.a. rifjað upp að Gordon Brown fyrrum forsætisráðherra Breta hafi sakað Geir um óviðunandi og ólöglega framkomu með því að reyna ekki að bæta skaðan sem lenti á Bretum vegna Icesave reikninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×