Innlent

Landspítalinn kominn að þolmörkum

Níu milljörðum minna er varið til reksturs Landspítalans en árið 2007 en verkefnum starfsfólks hefur fjölgað. Eitthvað hlýtur að láta undan ef gengið veður lengra segir Björn Zoëga, forstjóri spítalans.

Björn kynnti í dag ársskýrslu spítalans en í henni kemur meðal annars fram að annað árið í röð tókst spítalanum að skila rekstarafgangi upp á um fimm milljónir. Það eru reyndar 0,01 prósent af rekstrarfé spítalans og má því segja að nákvæmnin sé ansi mikil.

Þetta tókst jafnvel þótt enn hafi verið skorið niður í framlögum til spítalans, enn hafi aðföng hækkað í verði og jafnvel þótt umfang starfseminnar hafi aukist en laun starfsmanna hækkuðu vegna kjarasamninga og St. Jósefsspítali sameinaðist spítalanum.

„Við náðum þessu með mörgum breytingum þriðja árið í röð. Við höfum verið mjög skapandi í hugsun um það sem mætti breyta svo við gætum haldið uppi þjónustu og öryggi. Og það er afrek hjá starfsfólkinu að ná þessu og það er einnig afrek að sjúklingar hafa staðið með okkur í þessu," segir Björn Zoëga forstjóri Landspítalans.

Björn segir að hingað til hafi tekist að hagræða en um leið auka skilvirkni og það án þess að aðgerðirnar hafi bitnað á öryggi sjúklinga. Hann telur þó að ekki megi ganga lengra í sparnaðaraðgerðum gegn spítalanum. Þá muni eitthvað láta undan.

„Við treystum á gjafir og höfum gert hingað til en það dugar ekki lengur til," segir Björn.

Nefnir hann sem dæmi að tæki sem notað er við geislun í krabbameinsmeðferðum verði ekki endurnýjað oftar.

„Það er ekki hægt að fá varahluti í það tæki vegna fjárskorts. Ef það bilar erum við í miklum vandræðum," segir Björn.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra sagði algjöran viðsnúning hafa orðið á rekstri Landspítalans á ársfundi Landspítalans í dag. Í ávarpi sem Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri flutti fyrir hönd Guðbjarts þar kom fram að hið ómögulega hefði tekist.

„Tvö ár í röð hefur reksturinn verið innan ramma fjárlaga, þrátt fyrir miklar kröfur um hagræðingu og sparnað. Hér hefur ekki verið hvikað frá því markmiði að halda rekstri innan fjárheimilda," sagði Anna Lilja á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×