Enski boltinn

Árangur Chelsea í Meistaradeildinni gæti bitnað á öðrum enskum liðum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres fagnar marki sínu gegn Barcelona í gær.
Fernando Torres fagnar marki sínu gegn Barcelona í gær. nordic photos / getty images
Svo gæti farið að fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið myndi ekki duga til að öðlast þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Chelsea tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir annað hvort Real Madrid eða Bayern München. Úrslitaviðureignin fer fram þann 19. maí, eftir að tímabilinu lýkur í ensku úrvalsdeildinni.

Sem stendur er Chelsea í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og fari svo að liðið verði ekki eitt af fjórum efstu liðum deildarinnar að því loknu þyrfti Chelsea að stóla á sigur í Meistaradeildinni til að fá þátttökurétt í keppninni næsta tímabil.

En það yrði þá á kostnað liðsins sem myndi hafna í fjórða sæti. Aðeins fjögur ensk lið mega spila í Meistaradeildinni og sigur Chelsea í keppninni í voru myndi engu breyta um það. Chelsea fengi aðeins sæti liðsins sem hafnaði í fjórða sætinu.

Þar sem þetta mun ekki liggja ljóst fyrir fyrr en að tímabilinu loknu má gera ráð fyrir að liðin sem eru nú að berjast í 3.-6. sæti deildarinnar munu leggja ofurkapp á það að tryggja sér þriðja sætið - nema þá Chelsea sem myndi vitaskuld nægja að enda í því fjórða.

Þar stendur Arsenal best að vígi en liðið er með 65 stig í þriðja sæti. Newcastle (62 stig), Tottenham (59 stig) og Chelsea (58 stig) koma næst en öll eiga þau leik til góða á Arsenal.

Lokaleikir liðanna í deildinni:

Arsenal: Stoke (ú), Norwich (h), West Brom (ú).

Newcastle: Wigan (ú), Chelesa (ú), Manchester City (h), Everton (ú).

Tottenham: Blackburn (h), Bolton (ú), Aston Villa (ú), Fulham (h).

Chelsea: QPR (h), Newcastle (h), Liverpool (ú), Blackburn (h).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×