Innlent

Segir fjármálaráðuneytið hafa rænt Lífeyrissjóðnum

JHH og MH skrifar
Gunnar I. Birgisson fyrrverandi bæjarstjóri mætir til réttarhaldanna. Hann er einn hinna ákærðu.
Gunnar I. Birgisson fyrrverandi bæjarstjóri mætir til réttarhaldanna. Hann er einn hinna ákærðu. mynd/ pjetur.
Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi, segir að fjármálaráðuneytið hafi rænt Lífeyrissjóði Kópavogsbæjar. Þetta sagði hann þegar hann gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness í máli gegn stjórn Lífeyrissjóðs Kópavogsbæjar og framkvæmdastjóra sjóðsins.

Aðallega er deilt um formið á lánveitingum Lífeyrissjóðsins til bæjarins í lok árs 2008 og í byrjun árs 2009 en lánin numu allt að 600 milljónum króna. Gunnar sagði að ekki hafi komið til umræðu um formið á lánveitingunum fyrr en fjármálaráðuneytið hafi rænt sjóðnum. Þar á Gunnar við að í júní 2009 skipaði fjármálaráðherra, að tillögu Fjármálaeftirlitsins, Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar umsjónaraðila.

Gunnar Birgisson hefur núna lokið við að gefa skýrslu, en á undan honum gaf Sigrún Ásta Bragadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri sjóðsins, skýrslu.



Skeytasendingar milli saksóknara og verjanda


Það gengu skeytasendingar á milli Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns og Einars Tryggvasonar saksóknara við upphaf aðalmeðferðarinnarinar í dag

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Júlíussonar, gerði athugasemdir við spurningar Einars í skýrslutökum yfir Sigrúnu Ágústu. Gestur sagði að spurningarnar tengdust ekki ákæruefninu, en það væri fyrst og fremst tekist á um form lánsins.

„Er málflutningur núna?" spurði Einar þá og var augljóslega ekki sáttur.

Hin ákærðu í málinu eru Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, Flosi Eiríksson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Samfylkingar, Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir og Sigrún Ágústa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×